Gelt á þá fyrir að vera samkynhneigðir

Ljósmynd/Axel Ingi Árnason

Axel Ingi Árnason tónskáld lenti í því ásamt eiginmanni sínum, er þeir stigu inn í leigubíl eftir að hafa fagnað brúðkaupsafmæli sínu í gærkvöldi, að hópur karla á þrítugsaldri gelti á þá.

Hann segir mennina hafa hlegið að þessu athæfi sínu og einn þeirra síðan sagt: „Það á að gelta á þessi helvíti.“ 

„Við erum að stíga inn í leigubíl þegar það koma þrír karlmenn á þrítugsaldri á rafhlaupahjóli. Þeir hægja á sér og gelta á okkur. Þeir hlæja allir voðalega mikið og einn þeirra segir síðan þessa setningu,“ segir Axel í samtali við mbl.is.

Ljósmynd/Axel Ingi Árnason

Alþjóðlegt vandamál

Að sögn Axels er ekki um einstakt tilvik að ræða heldur séu fleiri sem hafi lent í svipuðum atvikum þar sem gelt er á hinsegin fólk út á götu, hér á landi sem og annars staðar í heiminum.

„Þetta er að gerast úti í heimi og þetta er að færast í aukana hérna heima. Vinir okkar sem eru hinsegin hafa lent í þessu á undanförnum vikum og mánuðum, að það sé gelt á þá út á götu,“ segir hann og bætir við að um alþjóðlegt vandamál sé að ræða.

„Þetta er notað til að afmanneskjuvæða einstaklingana og reyna að gefa í skyn að þeir séu dýr og skepnur, sem er bara hræðilegt.“

AFP

Getur haft afdrifaríkar afleiðingar

Axel bendir á að í grunninn snúist þetta um það, að fyrir fólk sem hefur barist fyrir því að mega vera það sjálft þá séu allar árásir og aðdróttanir til þess fallnar að láta fólki líða illa.

Oft sé um að ræða fólk sem mega ekki við því að það sé veist að því út á götu.

„Sérstaklega fyrir ungt fólk þarna úti, sem er allsstaðar á litrófinu, þar sem það er verið að gefa í skyn að þau séu síðri manneskjur en aðrir, það getur haft afdrifaríkar afleiðingar sem er hryllilegt.“

Axel bendir á að þörf sé fyrir enn meiri fræðslu á öllum fletum samfélagsins til að sporna við fordómum í garð hinsegin fólks.

Sam­tök­in '78 sinna ýmissi þjón­ustu varðandi fræðslu og ráðgjöf er varðar mál­efni hinseg­in fólks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert