Hálendisvaktin býst við 1.000 útköllum

Björgunarsveitin brást við útkalli vegna göngukonu í vandræðum í Hvalfirði, …
Björgunarsveitin brást við útkalli vegna göngukonu í vandræðum í Hvalfirði, sem gat ekki gengið niður af sjálfsdáðum. Ljósmynd/Landsbjörg

Hálendisvakt Landsbjargar sinnti mörgum verkefnum undanfarna viku og aðrar sveitir Landsbjargar hafa haft í nógu að snúast. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir verkefnin á hálendinu hafa náð á fimmta tuginn.

„Við fengum að ég held sjö útköll síðasta fimmtudag en tel að hálendisvaktin hafi sinnt um 30 verkefnum. Það er væntanlega af því að sveitin rekst á fólk í vandræðum á ferðum sínum.“

Hálendisvaktin kláraði nú þriðju vikuna á árinu, en þeir hópar samanstanda af 10-15 manns, staðsettir í Nýjadal á Sprengisandi, Landmannalaugum og Drekagili í Öskju. Fjórði hópurinn verður í Skaftafelli og mun hefja starfsemi í næstu viku, en hann á að sinna útköllum í grennd við Vatnajökul og umferðina í næsta nágrenni.

Margir vanmeta íslenska veðrið

„Þetta er sextánda árið í röð sem hálendisvaktin bregst við útköllum, en yfir sumartímann er vaktin að sinna hátt í 1.000 verkefnum,“ segir Davíð Már. Hann telur Íslendinga jafnt sem ferðamenn vanmeta íslenska veðrið. „Svona lárétt rigning eins og var síðasta fimmtudag er dæmigerð fyrir Ísland, en vatnsheld tjöld og búnaður blotna í gegn og fólk á í hættu að kólna illa.“ Hann segir útköll sl. fimmtudag hafa verið talsvert fleiri en hina dagana vegna veðurfars og fólk víða komið í hættu á hálendinu.

„Strax klukkan sex var útkall vegna tveggja kvenna sem voru örmagna eftir að þær tjölduðu nóttina áður á Fimmvörðuhálsi. Um hádegi komu tilkynningar af göngufólki í vandræðum milli Landamannalauga og Hrafntinnuskers.“

Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert