Upp úr níu í gærkvöldi sinnti lögregla útkalli vegna ölvaðs manns á veitingastað sem neitaði að fara. Kemur fram í dagbók lögreglu að henni hafi tekist að ræða við manninn og fór hann að lokum.
Um sexleytið í gærkvöldi var tilkynnt um mann sem lá hreyfingarlaus í götunni. Þegar lögregla mætti á staðinn sagðist hann vera að leggja sig og bað um leiðbeiningar að íþróttavöruverslun. Kemur fram að maðurinn virðist ekki hafa verið ölvaður og var honum leiðbeint hvernig hann kæmist í verslunina.
Þrír aðilar voru í gær grunaðir um þjófnað. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu þar sem það var metið sem minniháttar.
Þá var skömmu fyrir miðnætti í gær tilkynnt um slys í miðbænum þar sem aðili féll og fékk áverka í andlit. Sá var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild en var laus skömmu síðar.
Töluvert var einnig um að ökumenn væru stöðvaðir í nótt, flestir voru lausir að sýnatöku lokinni. Einn reyndist hins vegar án réttinda og annar var fluttur á lögreglustöð þar sem hann var grunaður um akstur undir áhrifum lyfja/fíkniefna.