Allt gekk að óskum þegar rafmagnsflugvélin TF-KWH fór í fyrsta flugið síðdegis í gær frá flugvellinum á Hellu. „Þetta eru tímamót, stór dagur og upphaf að öðru og meira. Nákvæmlega núna stöndum við andspænis miklum tímamótum í flugheiminum,“ sagði Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, sem fór á vélinni í þetta fyrsta flug. Með honum var Rickard Carlsson frá Svíþjóð, sem hefur þjálfun á vélina með höndum.
Flugferðin tók 18 mínútur, en þar tóku Matthías og Rickard stóran hring við Hellu og þrjár snertilendingar. Komið var með vélina austur síðdegis og hún sett saman, sem var fljótgert. Svo farið í loftið og teknir verða túrar frá Hellu næstu daga. Flugvélin nýja er tveggja sæta af gerðinni Pipistrel, framleidd í Slóveníu. Er í eigu Rafmagnsflugs ehf. sem var stofnað af Matthíasi Sveinbjörnssyni og Friðriki Pálssyni á sl. ári. sbs@mbl.is