Stórmeistararnir Helgi Ólafsson og Jóhann Hjartarson fullyrða að tréborðið sem Bobby Fischer og Boris Spasskí tefldu 7.-21. skák einvígis aldarinnar á sumarið 1972 og sennilega þriðju skákina líka sé fundið í eitt skipti fyrir öll. Þökk sé góðri rannsóknarvinnu Jóns Gústafssonar kvikmyndagerðarmanns.
Lengi hafa verið áhöld um hvort borðið, sem er í eigu Skáksambands Íslands, sé í raun og veru hið eina sanna en Helgi og Jóhann telja sig nú eftir rannsóknarvinnu seinustu mánaða geta fullyrt það. Jóhann talar um 95% vissu en Helgi vill ganga enn þá lengra. „Líkurnar á því að þetta sé ekki borðið eru hverfandi litlar. Það er eiginlega hægt að útiloka alla aðra möguleika,“ segir hann.
En hvernig geta þeir fullyrt þetta?
Þannig er mál með vexti að Jón Gústafsson, kvikmyndagerðarmaður og samstarfsmaður Jóhanns hjá Íslenskri erfðagreiningu, var fenginn til að bera borðið saman við gamlar ljósmyndir sem teknar voru á laun af borðinu við lok einvígisins í september 1972, af Sigurði Jakobssyni, þáverandi húsverði í Laugardalshöllinni, á myndavél í eigu spænska blaðamannsins Albertos Canaguerals. Myndirnar eru sennilega teknar nóttina eftir seinustu skák einvígisins enda getur þar að líta lokastöðuna í henni. Niðurstaða Jóns er afgerandi: Um sama borð er að ræða.
Helgi komst yfir afrit af téðum ljósmyndum árið 2018 þegar hann hitti Canagueral af allt öðru tilefni og birti eina þeirra í skákpistli sínum í Morgunblaðinu sama ár og hvatti til þess að málið yrði upplýst fyrir 50 ára afmæli einvígisins. „Ég var búinn að leita að þessari mynd í marga áratugi og þarna var hún allt í einu komin. Staðfesting á því hvernig rétta borðið leit út. Ég sá að þarna var fiskur undir steini og að skoða þyrfti málið betur,“ segir Helgi en talsverð umræða hefur átt sér stað undanfarinn áratug, eða eftir að borð sem sagt var hafa verið notað í einvíginu var selt á uppboði í New York 2011. Strax komu fram efasemdir um að það væri rétta borðið.
Helgi og Jóhann eru á einu máli um að ljósmyndir Sigurðar af Canagueral séu stórmerkileg heimild en aðeins sérlegur ljósmyndari einvígisins fékk að mynda í salnum. „Fischer varð alveg dýrvitlaus ef hann heyrði einhvern smella af mynd og gat heyrt í kvikmyndavélum þó engin væri í salnum,“ segir Jóhann.
Þeir Helgi sitja saman í stjórn Fischerseturs á Selfossi og á leið heim eftir stjórnarfund seint á síðasta ári bárust þessar myndir í tal. „Mér datt í hug að fá Jón Gústafsson til að skoða málið; bera myndirnar saman við borðið sem til var hjá Skáksambandinu. Jón er aðallega í því að gera Hollywoodkvikmyndir en tók þetta að sér meðfram því,“ segir Jóhann sposkur.
Síðan hófst CSI-vinnan, eins og þeir félagar kalla það, og vísa þar í vinsæla lögguþætti úr sjónvarpinu, þar sem rannsakendur á vettvangi láta ljós sitt skína. „Ég er ekki hérna vegna þess að ég veit meira um skák en þeir,“ segir Jón en hann kann á hinn bóginn sitthvað fyrir sér í myndvinnslu og -greiningu í tölvu og býr að fyrsta flokks búnaði.
Fyrsta málið var að fá myndirnar frá Canagueral í eins góðri upplausn og kostur var. „Ég vildi auðvitað fá filmuna sjálfa en hann fékkst ekki til að láta hana af hendi,“ segir Jón en myndirnar hafa líklega verið teknar á 400 asa filmu. Því næst tók hann myndir af borðinu sjálfu og bar þær saman við gömlu myndirnar. Lagði þá nýju ofan á þá gömlu í tölvunni sinni, eins og hann sýnir okkur Hákoni ljósmyndara. Leggur að okkur að fylgast sérstaklega með nokkrum svörtum reitum, D6, C7, E7 og C3, og ekki er um að villast – mynstrið er það sama. Línurnar í borðinu liggja nákvæmlega eins og línurnar á gömlu ljósmyndinni. „Fyrir mér eru þetta yfirgnæfandi líkur. Við erum að tala um sama borðið,“ segir Jón.
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.