Skipverjinn átti engra kosta völ

Björgunarskipið Björg dró bátinn Gosa að landi þar sem slökkviliðið …
Björgunarskipið Björg dró bátinn Gosa að landi þar sem slökkviliðið tók að sér að klára slökkvistarf úr fjöruborðinu skammt frá Rifi. Ljósmynd/Tómas Freyr Kristjánsson

Skipverji bátsins Gosa, sem kviknaði í sl. miðvikudag skammt frá Rifi á Snæfellsnesi, kastaði sér frá borði eftir að hann varð var við eld í vélarrúmi bátsins. Hann kom sér síðan í björgunarbát.

„Staðan var bara þannig að hann hafði enga aðra kosta völ en að kasta sér í sjóinn með björgunarbátinn, það var ekkert annað hægt að gera,“ segir Birgir Haukdal Rúnarsson, eigandi Gosa KE-102, um aðdraganda brunans.

Eldurinn átti upptök sín í vélarrúmi bátsins þar sem stórir olíutankar voru staðsettir að sögn Birgis. Þar af leiðandi var ekkert annað í stöðunni fyrir skipverjann en að koma sér í burtu er eldurinn gerði vart um sig. Blessunarlega slapp skipverjinn úr brunanum án meiðsla.

Eitthvað sem enginn maður vill lenda í

„Þetta tók mikið á fyrir hann. Þetta er eitthvað sem enginn maður vill lenda í; að vera í bát út á sjó sem brennur.“

Skipverjinn hefur ekki tjáð sig um brunann að svo stöddu við fjölmiðla. „Hann vill ekki tala við blaðamenn. Hann er að jafna sig enn þá og vill ekki tjá sig um þetta,“ segir Birgir.

Aðspurður segir hann tjónið vera talsvert. „Þetta er bara altjón í raun og veru. Báturinn er ekki til, það er bara kjölurinn á honum eftir.“

Birgir kveðst sjá mikið eftir bátnum. „Mér þykir bara vænt um þennan bát. Hann hefur fylgt mér síðan ég byrjaði í útgerð. Það er bara ömurlegt að horfa upp á þetta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert