Dreymdi lengi um að ná draumaskotinu

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Hörð Kristleifsson, 23 ára ljósmyndara, hefur undanfarin ár dreymt um að ná sannkölluðu draumaskoti af Keili á Reykjanesskaga, þar sem hann stendur á toppi fjallsins umlukinn þokuskýjum. Keilir er ekki hátt fjall, eða um 379 metra yfir sjávarmáli, og því er sjaldgæft að upplifa „skýjagólf” þar. 

„Þegar ég gekk á Keili í fyrsta sinn og stóð á toppnum ímyndaði ég mér hversu flott það væri að ná mynd af mér fyrir ofan skýin, þar sem toppurinn stæði upp úr. Eftir nokkrar tilraunir síðustu ár tókst það loksins og niðurstaðan var umrædd mynd,” segir hann í samtali við mbl.is

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Talsverð áskorun

Hörður lagði af stað um hálfníuleytið að kvöldi til þann 20. júní að Keili þar sem veðurspáin lofaði góðu. Þegar hann komst upp á toppinn um tíu leytið voru engin ský nálægt Keili, en þá nýtti hann tímann og tók myndir þar til sólin settist á miðnætti. Eftir sólsetur beið hann rólegur á toppnum þar til þokuský byrjuðu að nálgast Keili klukkan rúmlega eitt að nóttu til. Rétt fyrir tvö var toppurinn síðan alveg umlukinn þokuskýjum. 

„Þá sendi ég drónann upp og næ þessu draumaskoti. Það voru sumarsólstöður þannig að það var enn bjart úti, himininn var alveg glóandi,“ segir hann og bætir við að sökum hæð fjallsins þá getur verið talsverð áskorun að ná slíkri mynd.

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Að sögn Harðar hefur hann einbeitt sér að ljósmyndun á íslensku landslagi undanfarin ár, og þá sérstaklega með dróna. Hörður heldur úti Instagram aðgangi þar sem hann deilir ljósmyndum sínum með fylgjendahópnum, sem telur um 513 þúsund manns í dag. 

Leit út fyrir að vera í gígnum

Hörður er með lista yfir staði sem hann langar til að mynda í ákveðnum draumaaðstæðum. Íslenskt sumar, þegar það er bjart allan sólarhringinn, er að sögn hans í miklu uppáhaldi og hefur hann stundað það að fara í fjallgöngur á nóttunni til að ná myndum af sólsetri og sólarupprás. 

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

„Það eru nokkrar „bucket-list“ myndir sem maður hefur á lista. Það var ljósmyndin af Keili sem og myndin af Karlinum á Reykjanesi. Árið 2020 gekk ég upp á Kirkjufell í Grundarfirði á sumarsólstöðum, og á sama tíma í fyrra gekk ég á Lómagnúp á Suðurlandi.“

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Líkt og margir aðrir landar lét Hörður sig ekki vanta þegar eldgos hófst í Fagradalsfjalli. Námu ferðir hans að gosinu í heild um þrjátíu skipti.

„Eftirminnilegasta augnablikið mitt við gosið var 30. apríl 2021 þegar gígurinn var í stöðugri kvikustrókavirkni. Þá stóð ég í 200 metra fjarlægð frá gígnum og horfði á hraunið skjótast hundrað metra upp í loftið. Ég ákvað að taka eina mynd þar sem ég stillti myndavélinni upp á þrífót með aðdráttarlinsu í 100 metra fjarlægð frá mér. Þannig lét aðdráttarlinsan líta út fyrir að ég stæði beint fyrir framan gíginn, en í raun var ég í öruggri fjarlægð.“ 

Ljósmynd/Hörður Kristleifsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert