Í júlímánuði árið 1985 tóku popparar höndum saman og héldu tónleika samtímis beggja vegna Atlantshafsins til styrktar fólki sem átti um sárt að binda í Eþíópíu vegna hungursneyðar.
Live Aid voru tónleikarnir kallaðir og eru fyrir löngu orðnir frægir. Tónleikarnir og ýmislegt í kringum uppátækið skilaði geysilegum upphæðum sem sannarlega björguðu mannslífum í Eþíópíu. Þar sem framtakið er jafn þekkt og raun ber vitni þá kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir að fáir höfðu trú á því að tónleikarnir yrðu að veruleika á sínum tíma. Fyrir vikið höfðu tónlistarmennirnir engan sérstakan áhuga á að vera með þótt málstaðurinn væri góður. Farið var yfir margar erfiðar hindranir þótt tónleikarnir hafi að stærstu leyti heppnast vel og þar með söfnunin sem var aðalatriðið.
Oft er ágætt að byrja á byrjuninni en haustið 1984 voru sýndar sláandi fréttamyndir á BBC sem sýndu afleiðingar hungursneyðarinnar í Eþíópíu. Þessar fréttamyndir fóru víða um heima og hafa tæplega látið nokkurn ósnortinn sem þær sáu. Þessar sömu fréttamyndir mátti til að mynda sjá í myndbandinu við lagið Hjálpum þeim þegar tónlistarfólk á Íslandi lagðist á árarnar í hjálparstarfinu.
Ólíkindatólið Bob Geldof var heima hjá sér í London að horfa á fréttatímann. Fréttin hreyfði það mikið við Geldof að hann linnti ekki látum fyrr en hann hafði sett í gang verkefni til að safna fé. Geldof viðurkennir að hann hafi sjálfur ekki skipt miklu máli í tónlistarheiminum á þessm tíma. Ferill hans hafði verið á niðurleið um skeið en hljómsveitin The Boomtown Rats hafði náð töluverðum vinsældum nokkrum árum fyrr og Geldof þekkti því flesta í bransanum á Bretlandseyjum.
Geldof hafði samband við Skotann Midge Ure sem á þessum árum samdi hvern slagarann á fætur öðrum með Ultravox en Ure tróð upp hér á Íslandi árið 2018 með Todmobile. Ure útsetti jólalagið Do They Know It’s Christmas? sem þeir sömdu saman og Geldof smalaði saman ýmsum þekktum Bretum úr poppinu til að syngja í stúdíói. Þau kölluðu sig Band Aid og framtakið var upphafið að Live Aid sem fór fram sumarið eftir. Viðbrögðin voru þó blendin. Frekjuhundurinn Bob Geldof þótti ekki ýkjatrúverðugur í góðgerðarhlutverkinu og margir töldu hann einfaldlega vonast eftir því að halda sér í umræðunni með þessu.
Hjúkrunarfræðingurinn Claire Bertshinger var á vettvangi í Eþíópíu og var rætt við hana í fréttinni frægu. Henni var ekki skemmt. Fyrsta upplifun hennar var að uppátækið væri fáránlegt, textinn hallærislegur og þar væru popparar að reyna að gera hungursneyð í Afríku að féþúfu. Síðar sagðist hún hafa skipt um skoðun þegar hún sá hverju tónleikarnir árið eftir skiluðu.
Geldof og Ure vildu skiljanlega tryggja að upphæðirnar sem söfnuðust með sölu smáskífunnar myndu skila sér til þeirra sem á þurftu að halda. Rauða krossinum treystu þeir en síður stjórnvöldum í Eþíópíu. Geldof var því hvattur til að fara á staðinn og sjá hjálparstarfið með eigin augum sem hann gerði. Ekki dró það úr áhuganum að safna fé fyrir hjálparstarfið og smám saman varð hugmyndin að tónleikunum til.
Hugmyndin að stórtónleikum í Bandaríkjunum og Evrópu á sama tíma í beinni útsendingu var langsótt ef horft er til tækninnar á þessum árum. Nánast eina fordæmið fyrir beinni sjónvarpsútsendingu um allan heiminn fram að þessu var Ólympíuleikarnir í Los Angeles ári áður.
Greinina í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.