Einhverjir safna frímerkjum og aðrir hljómplötum en Birgir Hólm Björgvinsson státar hins vegar af veglegu derhúfusafni sem samanstendur af húfum sem honum hafa áskotnast héðan og þaðan úr heiminum. Því ekki það?
Birgir kemur til fundar við blaðamann í Hádegismóunum með eina splunkunýja á höfðinu. Hún er merkt golfmótinu The Open Championship, einu elsta íþróttamóti í heiminum. Á henni stendur 150 en mótið síðar í mánuðinum í St. Andrews í Skotlandi verður númer 150 í röðinni. Þótt mótið hafi ekki einu sinni farið fram er Birgir kominn með húfu í hendurnar og á höfuðið ef honum sýnist svo.
Birgir rennir við þegar hann kemur í höfuðstaðinn frá Flúðum þar sem hann og eiginkonan Edda Svavarsdóttir hafa átt bústað í aldarfjórðung eða svo. Þar er flottasta samfélag sem hann segist hafa kynnst um ævina. Spurður um hvenær hann hafi farið að safna derhúfum segir Birgir að það hafi líklega byrjað að einhverju leyti í Bandaríkjunum.
„Vinafólk okkar á Flúðum bauð okkur einhvern tíma að vera hjá sér í heimsókn í Flórída. Þá var farið að æsa okkur upp í að kaupa hús í Flórída. Þá var farið að byggja lítil og skemmtileg hús sem voru um 120 fermetrar og við höfðum afnot af húsi þar um tíma. Ég á margar húfur frá Flórída til dæmis frá ýmsum golfvöllum sem ég spilaði sjálfur. Þegar ég kom heim frá Bandaríkjunum þá var ég kannski með tíu til fimmtán húfur. Þá jókst þetta en ég var kannski farinn að kroppa eitthvað í þetta aðeins fyrr,“ segir Birgir.
Hann segir „strákinn“ hafa komið með nýju húfuna fyrir sig en strákurinn er Haukur Örn Birgisson sonur þeirra hjóna og fráfarandi forseti Golfsambands Íslands. Haukur var um tíma forseti Golfsambands Evrópu og ferðaðist talsvert vegna embættisins.
„Þá hljóp á snærið hjá mér því hann gefur karlinum alltaf eitthvað þegar hann kemur heim,“ bendir Birgir á. „Hann var úti um daginn þegar hann fékk þessa og það er ekki einu sinni farið að spila þetta mót.“
Í derhúfusafninu eru líklega um hundrað og tuttugu húfur telur Birgir en er ekki að velta fyrir sér nákvæmri tölu.
„Líklega byrjaði þetta hjá mér þegar ég var að láta gera húfur fyrir Sjómannafélagið og félagsmennina þar. Þetta er fljótt að koma. Þegar maður hafði verið í tvo mánuði í Bandaríkjunum þá komu kannski tíu til fimmtán húfur með heim. Svo á ég húfu frá Kína og hinum og þessum löndum. Ég hef varla pláss fyrir þetta lengur og eitthvað af þessu er hefur verið sett ofan í poka. Ég er með bílskúr á Flúðum þar sem golfbíllinn okkar er geymdur. Þar eru allt fullt af húfum og í svefnherberginu einnig. Konan er nú ekki ýkja hrifin af þessu,“ segir Birgir en húfurnar sem hann heldur upp á tengjast allar golfhreyfingunni með einhverjum hætti.
„Ég hendi hinu bara. Hef ekkert að gera með að halda upp á það.“
Á mynd sem fylgir viðtalinu má þó sjá Birgi með forláta derhúfur sem tengjast forsetakosningunum í Bandaríkjunum þegar Donald Trump og Hillary Clinton sóttust eftir embættinu og úr varð hörð kosningabarátta.
„Já ég geymdi þessar húfur eiginlega bara til þess að stríða vinum og kunningjum. Ef ég fór að hitta fólk sem hafði miklar skoðanir á frambjóðendunum. Ef ég fór að hitta fólk sem studdi Trump þá var ég með Hillary húfuna og svo öfugt. Þetta var ágætt til að ná fólki upp. Ég er svolítið fyrir það,“ segir Birgir og hlær.
Viðtalið við Birgi í heild sinni er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.