Mikið álag er á fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað um þessar mundir. Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, segir sjúkradeildina vera yfirleitt fulla.
„Það er búið að vera undanfarið töluvert álag á sjúkradeildinni á Neskaupstað. Margir inniliggjandi og deildin yfirleitt nánast full,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Á deildinni liggja fimm inni með Covid-19. „Það eru alltaf einhverjir inniliggjandi sökum Covid. Eins og staðan er núna þá eru þeir fimm samtals.“
Á föstudaginn greindi mbl.is frá því að gripið hefði verið til þess örþrifaráðs af hálfu sjúkrahússins á Akureyri að kalla starfsmenn til vinnu úr sumarleyfum vegna mikillar manneklu.
Aðspurður segir Guðjón að reynt verði að kalla ekki fólk úr sumarleyfum en að mönnunin sé tæp.
„Við höfum reynt að gera það ekki. Það er reynt að skipuleggja það þannig að allir geta tekið sumarfríin sín. En mönnun er tæp, okkur vantar fólk. Og þetta verður náttúrulega ennþá tæpara yfir sumartímann.“
Tónlistarhátíðin Eistnaflug fór fram um helgina á Neskaupstað. Upp komu nokkur tilvik þar sem þörf var á aðstoð sjúkrahússins en tilvikin leiddu ekki til aukaálags að sögn Guðjóns.
„Það voru einhver tilvik, en þau voru óveruleg þannig að það var ekkert aukaálag á sjúkrahúsinu.“