Tilkynnt var um umferðarslys við bensínstöð í hverfi 109 laust eftir klukkan sjö í gærkvöldi. Ungur ökumaður bifhjóls missti stjórn á hjólinu með þeim afleiðingum að hann rann undir kyrrstæða bifreið sem stóð við bensíndælu en ökumaður bifreiðarinnar var að dæla bensíni á bílinn.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar segir einnig að ökumaðurinn og starfsmaður bensínstöðvarinnar hafi notað tjakk og lyftu bifreiðinni til að losa manninn sem var síðan fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild. Ekki er vitað um meiðsl.
Á fjórða tímanum í nótt óskaði leigubílstjóri aðstoðar lögreglu vegna tjóns af völdum rafmagnshlauphjóls. Ökumaður hjólsins er grunaður um að stjórna hjóli undir áhrifum fíkniefnum.
Þá var bifreið stöðvuð í hverfi 220 í gærkvöldi þar sem að bifreiðin hafði áður verið tilkynnt stolin. Kemur fram að ökumaðurinn sé grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, án réttinda og nytjastuld bifreiðar.
Laust eftir klukkan 10 í gærkvöldi var ofurölvi maður handtekinn í hverfi 110 en ítrekað var búið að hafa afskipti af manninum þar sem hann var með ónæði og fór ekki að fyrirmælum lögreglu.