Skildi ekki hvað var að gerast!

Anna Þuríður Ingólfsdóttir verður níræð á þriðjudaginn.
Anna Þuríður Ingólfsdóttir verður níræð á þriðjudaginn. Mbl.is/Hákon Pálsson

„Hissa? Ég bara skildi ekki hvað var að gerast! Ég náði aldrei góðu starti, byrjaði því síðust og endaði fyrst. Það voru engar startblokkir á þessum tíma. Við stóðum bara við rásmarkið og sagt var: Viðbúnar! Nú!“

Þannig minnist Anna Þuríður Ingólfsdóttir fyrsta opinbera 80 metra hlaupsins sem hún tók þátt í, á Landsmótinu á Laugum sumarið 1946, þegar hún var aðeins 13 ára. Hún sigraði með yfirburðum. Hlaut upp frá því viðurnefnið Hindin frá Húsabakka. 

Anna Þuríður var til þess að gera nýbyrjuð að æfa hlaup og hafði fram að þessu bara reynt sig við Helga bróður sinn og kálfana heima á Húsabakka í Aðaldal. Hlaupið var í undanrásum og Anna Þuríður stóð undir nýfengnum væntingum í úrslitahlaupinu daginn eftir en þar reið líka á að standa sig.

Kominn var nokkur mótvindur og því þýddi lítið að reyna að bæta metið. „Verðlaun og upphefð voru líka nægilegt keppikefli,“ segir í bókinni Saga landsmóta UMFÍ 1909-1990 sem kom út 1992. Anna Þuríður lá aftur eftir í viðbragðinu, en síðan fór hún framúr hinum stúlkunum þrem, létt eins og hind, og sigraði örugglega á 11,2 sek. Hinar stúlkurnar komu allar í einum hnapp og fengu sama tíma, 11,4 sek., svo sjónarmunur var látinn ráða.

Ekki voru lætin minni 

Ekki voru lætin minni eftir það hlaup. „Ég var kölluð fram fyrir fulla brekku af fólki og mynduð í bak og fyrir. Þetta var alveg skelfilegt,“ rifjar Anna Þuríður upp hlæjandi. Feimna stúlkan, sem enn átti nokkra daga eftir í 14 ára afmælið, hafði ekki gert ráð fyrir þessu tilstandi. Hafði bara hugsað sér að koma og hlaupa eins hratt og fætur toguðu. Nú þyrptist að henni bláókunnugt fólk að óska henni til hamingju með árangurinn.

Anna Þuríður Ingólfsdóttir á ferðinni berfætt á Landsmótinu í Hveragerði …
Anna Þuríður Ingólfsdóttir á ferðinni berfætt á Landsmótinu í Hveragerði 1949, þá sextán ára.


– Það hefur greinilega verið mál fyrir þig svona feimna að mæta á mótið?

„Mál. Það var stórmál!“ segir Anna Þuríður og hlær.

Verðlaunin voru ekki veitt á staðnum á þessum tíma en Anna Þuríður fékk afhent plagg því til staðfestingar að gullið yrði sent heim til hennar síðar.

– Áttu gullið enn þá?

„Nei, því miður. Fyrir mörgum áratugum geymdi ég dót í læstri geymslu hjá bróður mínum hérna fyrir sunnan og brotist var þar inn og gullinu stolið ásamt öðrum verðlaunapeningum mínum frá seinni Landsmótum. Þeir hafa ekki komið fram aftur. Ég var mjög leið yfir þessu.“

Nánar er rætt við Önnu Þuríði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hún verður níræð á þriðjudaginn. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert