Vinir Kópavogs láta ekki deigan síga

Vinir Kópavogs vilja ekki sjá íbúðir í Hamraborg, heldur miðbæjarkjarna …
Vinir Kópavogs vilja ekki sjá íbúðir í Hamraborg, heldur miðbæjarkjarna og torg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Baráttu Vina Kópavogs, sem snýr að uppbyggingu í Hamraborg, er hvergi nærri lokið þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. 

Vinir Kópavogs kærðu, ásamt nánar tilgreindum fasteignaeigendum, framkvæmdir þær sem fyrirhugaðar eru í Hamraborginni í Kópavogi. 

Nefndin vísaði frá kæru Vina Kópavogs, á grundvelli aðildarskorts, en tók málið engu að síður til efnislegrar meðferðar enda var fallist á að hinir tilgreindu fasteignaeigendur ættu lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess.

Ekki tekin afstaða til framkvæmdatímans

Meðal þeirra sem kærðu voru íbúar sem glíma við fötlun, og málið laut að miklu leyti að því hvort framkvæmdir á svæðinu væri í samræmi við lög um réttindi fatlaðs fólks. Er þar kveðið á um það að fötluðum skuli tryggt aðgengi að íbúðarhúsnæði sínu og því skuli vera þar minnst sjö bílastæði sem ekki sé lengra en 25 metra frá húsnæðinu. 

„Úrskurðarnefndin segir að þegar framkvæmdum verður lokið, standist allt sem varðar aðgengismál fatlaðra, en í úrskurðinum er hvergi tekin afstaða til framkvæmdatímans,“ segir Kolbeinn Reginsson, bæjarfulltrúi Vina Kópavogs og einn kærenda. 

Hann telur að uppbygging húsnæðis, líkt og þess sem áformað er í Hamraborginni, taki fimm til tíu ár, enda sé þar gert ráð fyrir 130 íbúðum og svæðið skilgreint sem þróunarreitur. 

„Úrskurðarnefndin skautar framhjá þessu og tekur enga afstöðu. Þetta er svo langur tími og fullt af fólki er þannig gert að fresta fötlun sinni um þennan tíma eða flytja af heimili sínu.“

Framkvæmdaraðilar líklegir til að bera fram ólöglega tillögu

Í úrskurðinum setur nefndin það í hendur framkvæmdaraðilanna að leggja fram tillögur fyrir bæjarstjórn, um það hvernig megi leysa úr þessum aðgengisvanda fatlaðs fólks, meðan á framkvæmdum stendur.

„Þeir hafa haft tvö ár til að koma með slíkar tillögur en það hefur ekki gengið upp ennþá. Við gerum þá kröfu að það verði ekki borin fram tillaga sem standist ekki þessi lög um fjölda stæða og 25 metra fjarlægðarmörk. Svona atriði geta verið matskennd en í þessu tilfelli erum við að treysta á metrakerfið, það er ekki hægt að rökræða sig frá því.“

Kolbeinn kveðst hafa fulla ástæðu til þess að ætla að framkvæmdaraðilarnir reyni að koma fram með ólöglegar tillögur, enda séu hér miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi. „Ég sem bæjarfulltrúi vill ekki sjá það.“

Setja málið á dagskrá á næsta fundi

Spurður hvort hann treysti því ekki að meirihlutinn í bæjarstjórn í Kópavogi eigi eftir að kjósa gegn tillögu sem ekki stenst lög, kveðst hann vonast til þess að fulltrúar í meirihlutanum beri skynsemi til þess að gera það. Hann er þó ekki sannfærður „miðað við það á undan er gengið.“

Næst þegar bæjarstjórn kemur saman ætla Vinir Kópavogs að setja málið á dagskrá og ítreka kröfur sínar um það að tillaga verði ekki borin undir bæjarstjórn frá framkvæmdaraðilum sem ekki standist lög. 

Þá bendir hann á að ekki sé hægt að byggja við húsnæði íbúa ef þeir eru því ekki samþykkir. Þannig hafi síðasta tillaga, sem framkvæmdaraðilar báru fram og fól í sér að settar  yrðu lyftur á húsið meðan á framkvæmdatíma stæði, felldar. 

Vona að hugmyndin renni til sjávar

Kolbeinn viðurkennir að út frá hagsmunum íbúa hafi Vinir Kópavogs enga sérstaka löngun til þess að fá fram tillögur frá framkvæmdaraðilum yfir höfuð, enda vilja þau sjá torg og almenningsrými í Hamraborginni en ekki „stærðarinnar steypuklump.“

„Þetta er eina leiðin okkar til að stöðva þessi áform. Við vonum að þessi hugmynd renni til sjávar, þegar þeim tekst ekki að koma með lausn, og hugmynd að nýjum miðbæ í Kópavogi fari fyrir dóm íbúa, sem fái þá að kjósa um það hvernig miðbæ þeir vilja.“

Fari svo að meirihluti bæjarstjórnar samþykki tillögu sem Vinir Kópavogs telja ekki í samræmi við lög, munu þeir og íbúar þeir sem eiga hagsmuna að gæta, leitast eftir því að fá úr því skorið fyrir dómstólum, að sögn Kolbeins. 

Spurður hvort Vinir Kópavogs ætli sér með þessu að halda byggingaráformum í Hamraborginni í gíslingu, svarar Kolbeinn að það sé í raun úrskurðarnefndin sem haldi málinu í gíslingu með því að vísa ákvörðunartöku aftur til bæjarstjórnar með þessum hætti. 

Úrskurður sem úrskurðar ekkert

Kolbeinn er ekki sáttur við úrskurðinn. „Þetta er úrskurður sem úrskurðar ekkert, þeir finna það sem er í lagi en skilja hitt eftir, eins og hér hafi myndast einhver vandi.“

Hann bendir á að nefndin hafi klofnað og að þeir sem skiluðu séráliti hafi einmitt bent á að ekki sé fjallað nægilega vel um öll atriði kærunnar. „Við erum að kalla eftir aukasvörum hvað það varðar.“

Mikilvægt er að vera með nefnd sem fer ítarlega yfir kærur og vandar sig í meðferð þeirra, að mati Kolbeins. „Hér erum við skilin eftir upp á von og óvon um að sveitarstjórn, hver sem hún svo er á hverjum tíma, taki afstöðu til tillagna framkvæmdaaðilanna fyrir framkvæmdatímann, í stað þess að nefndin úrskurði um það sjálf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert