Landsréttur hefur staðfest ákvörðun héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfu Björgólfs Thors Björgólfssonar um að Halldór Kristmannsson leggi fram gögn sem lúta að undirbúningi og öflun gagna fyrir málshöfðun gegn Björgólfi.
Fisveiðihlutafélagið Venus hf. og Vogun hf. hafa höfðað mál gegn Björgólfi til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem félögin telja sig hafa orðið fyrir vegna kaupa á hlutabréfum í Landsbanka Íslands árið 2007.
Byggja þau á því að Björgólfur hafi leynt upplýsingum um að Samson ehf. færi með yfirráð í Landsbankanum og bankinn stundaði umfangsmiklar lánveitingar til félaga undir stjórn Björgólfs. Björgólfur krefst sýknu á grundvelli þess að kröfur félagsins séu fyrndar auk þess sem forsvarsmenn þess hafi sýnt af sér stórkostlegt tómlæti.
Í þessum málaferlum krafðist Björgólfur þess að Halldór Kristmannsson yrði kvaddur fyrir dóm sem vörslumaður skjala og skyldaður til að leggja fram gögn í málinu, en hann er ekki málsaðili sjálfur.
Gögnin sem um ræðir eru tilgreind dómsskjöl í máli sem lögð hafa verið fram í dómsmáli sem fyrirtækið Alvogen höfðaði gegn Halldóri Kristmannssyni. „Af lýsingu þeirra að dæma lúta þau að undirbúningi og öflun gagna fyrir málshöfðun gegn sóknaraðila [Björgólfi].” Segir í dómi Landsréttar um gögnin.
Landsréttur hafnaði kröfunni, með vísan til forsendna héraðsdóms. Var tekið fram að það þyrfti sérstakar aðstæður til þess að þriðji maður yrði látinn koma fyrir dóm og bera á borð gögn, gegn sínum vilja, í máli sem hann er ekki aðili að.
Þá þótti Björgólfur ekki hafa tekist að sýna fram á að þessi gögn skiptu svo miklu máli fyrir mál það sem Venus og Vogun höfðuðu gegn honum, að það réttlætti slíkar aðgerðir.