Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í síðasta mánuði karlmann á sextugsaldri í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot. Manninum var ennfremur gert að greiða 323 milljóna kr. sekt í ríkissjóð.
Dómurinn var kveðinn upp 16. júní en var birtur um helgina.
Fram kemur að héraðssaksóknari hafi ákært manninn, Georg Mikaelsson, í júní 2020 fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum. Þar var hann m.a. sakaður um að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2010 til 2014, vegna tekjuáranna 2009 til 2013. Í ákærunni segir að Georg hafi látið undir höfuð leggjast að gera grein fyrir eignarhaldi sínu á félaginu Georg Mikaelsson Lt.d (kallað Félagið GM í dómnum til aðgreiningar frá öðru félagi), skráð og stofnað á Seychelleseyjum, og með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram skattskyldar tekjur á skattframtölum sínum vegna sömu ára.
Georg neitaði sök við meðferð málsins fyrir dómi og hélt því fram að meint brot vegna tekjuársins 2009 væru fyrnd. Hann viðurkenndi að hafa ekki tilgreint eignarhald sitt á Félaginu GM og rekstrarhagnað þess tekjuárin 2010 til 2013. Hann byggði á því að enginn rekstrarhagnaðar hefði verið og því að hann hefði einungis átt 10% í félaginu á umræddum tíma.
Í dómnum segir m.a. að skattrannsóknarstjóri hafi í desember 2015 tilkynnt manninum að hafin væri rannsókn á skattskilum hans vegna tekjuársins 2009 og í maí 2019 vísaði skattrannsóknarstjóri málinu til héraðssaksóknara.
Héraðsdómur segir óumdeilt í málinu að Georg hafi ekki getið um félagið á skattframtölum sínum en hann byggði á því að það hafi honum verið óskylt þar sem hann hafi, eftir að í febrúar 2010 hafi verið gengið að tryggingu er hann hafi sett fyrir láni sem hann og félagið hafi fengið árið áður, aðeins átt 10% hlut í félaginu.
„Sannað er í málinu að ákærði var í upphafi, árið 2009, einkaeigandi Félagsins GM. Jafnframt liggur fyrir í málinu að félagið var afskráð 1. janúar 2016. Verður að líta svo á að ákærði hafi verið einkaeigandi félagsins allt til loka, nema sýnt verði fram á að þar hafi orðið breyting á,“ segir í dómi héraðsdóms.
Í dómnum er m.a. fjallað um þá sem lögðu inn á reikning Félagsins GM, þar skeri einn hópur sig nokkuð úr að mati dómsins.
„Af skýrslu ákærða og allmargra vitna hefur komið íljós að ákærði hefur notið sérstaks trausts allmargra flugmanna. Í málinu hafa allmargir flugmenn borið um að þeir hafi átt gjaldeyrisviðskipti við ákærða með þeim hætti að þeir hafi lagt erlendan gjaldeyri inn á reikning Félagsins GM í Luxemborg og ákærði afhent þeim krónur í reiðufé stuttu síðar. Eins og rakið hefur verið báru allnokkurir flugmenn á þessa leið og bar saman um að ekki hefði verið gerður skriflegur samningurum viðskiptin en allt staðið eins og stafur á bók. Ákærði hafi boðið hagstæðara gengi en bankarnir og þetta gengið hratt og vel fyrir sig. Virðist ákærði hafa notið slíks trausts að jafnvel þeir sem sögðust ekki treysta bönkum áttu við hann slík viðskipti án nokkurs samnings eða tryggingar af hálfu ákærða. Enginn þeirra sem kom fyrir dóm og bar um viðskipti við ákærða taldi sig hafa verið hlunnfarinn í þeim. Fram kom hjá sækjanda fyrir dómi að alþekkt væri að flugmenn fengju dagpeninga sína greidda í erlendum gjaldeyri svo ekkert óeðlilegt væri við að þeir hefðu talsverðan gjaldeyri undir höndum og vildu skipta honum í krónur.“
Í niðurstöðukafla dómsins segir, að rekstrarhagnaður Félagsins GM frá 2010 til og með 2013 hafi numi 221,7 milljónum kr. Þann rekstrarhagnað gaf Georg ekki upp til skatts eins og honum bar að gera og kom hann sér þannig undan skattgreiðslum.
„Ákærða hefur samkvæmt sakavottorði ekki verið gerð refsing. Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í átján mánuði og sekt að fjárhæð 323.028.754 krónur í ríkissjóð. Fullnustu fangelsisrefsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Loks var Georg gert að greiða að tveimur þriðjuhlutum en ríkissjóður að þriðjungi 22 milljóna kr. málsvarnarlaun skipaðs verjanda.