„Ég held að atvinnurekendur hafi fengið sjokk“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir sífellt fleiri atvinnurekendur í Reykjavík hugsa sér til hreyfings vegna hárra skatta á atvinnuhúsnæði. Framkvæmdastjórinn, Ólafur Stephensen, segir skattana vera „langhæsta“ í Reykjavík.

„Við heyrum í fleiri og fleiri atvinnurekendum, sem eru að velta fyrir sér að skipta um húsnæði, hvort eigi ekki að taka þá flutninga í einhverjum af nágrannasveitarfélögunum sem eru mörg hver farin að bjóða upp á mun lægri skattprósentu heldur en í Reykjavík. Augljóslega veikir þetta samkeppnisstöðu höfuðborgarinnar gagnvart nágrannasveitarfélögunum,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

„Skattprósentan er sú langhæsta [í Reykjavík] nú þegar og mér sýnist að sá munur muni verða enn meiri eftir því sem á líður næsta ár.“

Verulegar hækkanir

Í lok maí tilkynnti Þjóðskrá Íslands um að Heild­armat fast­eigna á Íslandi myndi hækka um 19,9% frá yf­ir­stand­andi ári og verði 12.627 millj­arðar króna fyrir árið 2023. Atvinnuhúsnæði hækkar um 10,2%. Hærra fasteignamat þýðir að óbreyttu hærri fasteignagjöld. 

„Hækkunin er búin að vera tugir prósenta undanfarin ár. Menn eru að koma sér út úr Covid-19 faraldrinum og eru að glíma við hækkanir á nánast öllum aðföngum og það eru erfiðir kjarasamningar framundan. Ég held að atvinnurekendur hafi fengið „sjokk“ í vor þegar tölurnar um breytingar á fasteignamati birtust. Það er alveg deginum ljósara að við þessar aðstæður eru skattalækkanir nauðsynlegar,“ segir Ólafur.

„Fyrir vikið eru það vonbrigði að Reykjavíkurborg ætli ekki að lækka prósentuna fyrr en eftir þrjú ár.“

Meiri pólitískur vilji til lækkana

Ólafur segir að þau hjá Félagi atvinnurekanda viti ekki hvort skattar muni lækka jafnt á atvinnuhúsnæði eins og íbúðarhúsnæði.

„Við höfum ekki fengið neinar handfastar tölur en það er augljóslega meiri pólitískur vilji heldur en oft undanfarin ár til að lækka skattprósentuna til þess að halda skattbyrðinni á atvinnulífið nokkuð jafnri á milli ára í ýmsum sveitarfélögum. Það er klárlega framför því skattbyrðin hefur þyngst um tugi prósenta á undanförnum 7-8 árum,“ segir Ólafur.

Samtal um tekjustofna virðist erfitt

„Við teljum þeim fari fjölgandi sem eru sammála okkur um það að þetta gangi ekki svona lengur og það þurfi að segja stopp og vinda ofan af þessum hækkunum,“ segir Ólafur.

Núverandi fyrirkomulag þar sem fasteignagjöld hækka í takti við fasteignamat hefur víða verið gagnrýnt en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt það meingallað. Ólafur segir að ríki og sveitarfélög þurfa að tala saman um tekjustofnanna en það virðist vera erfitt samtal.

„Við teljum það vera miklu nær ef það væri til dæmis eitthvað kostnaðar útreiknað gjald á hvern fermetra atvinnuhúsnæðis eða eitthvað slíkt. Pólitíkin virðist eiga eitthvað erfitt með að taka á þessu,“ segir Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert