Ökumaður sem slapp ómeiddur úr banaslysi á Meðallandsvegi aðfaranótt föstudags er grunaður um ölvun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Í tilkynningunni segir að farþegi í jeppabifreið hafi látist þegar bifreiðinni var ekið út af Meðallandsvegi í Skaftárhrepp. Tveir farþegar voru fluttir alvarlega slasaðir með þyrlu til Reykjavíkur en eru á batavegi.
„Málið er í hefðbundnum rannsóknarferli en að þeirri rannsókn kemur auk lögreglu á Suðurlandi, m.a. með aðstoð sérfræðings í rannsóknum ökutækja, tæknideild lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Upplýsingar um einstaka rannsóknarþætti verða ekki gefnar á meðan á rannsókninni stendur,“ segir í tilkynningunni.