„Það er hæð sem situr yfir Vestur-Evrópu og þá beinast lægðirnar hingað,“ segir Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um verðurspána út vikuna, en veðrið hefur ekki verið hið sumarlegasta síðastliðna daga.
„Það er að koma hér lægð upp að landinu sem fer rétt fyrir austan land. Það virðist þó ekki vera mjög hvasst í henni,“ segir Björn enn fremur.
Þó segir hann að búast megi við hvassri norðvestanátt á Austfjörðum seint á morgun með vindhviðum sem geti verið vafasamar fyrir bíla sem taka á sig vind.
Þá kólnar talsvert fyrir norðan á morgun en hlýnar aftur á miðvikudag og fimmtudag.
„Svo kemur önnur lægð á föstudaginn sem verður að flækjast á föstudag og laugardag yfir landið. Aftur á sunnudag kemur norðanátt og þá verður einhver væta fyrir norðan og svalt. Það er áframhaldandi svona lægðagangur,“ segir Björn.
Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson greindi frá því í færslu á Facebook-síðu sinni Bliku að útlit væri fyrir að lægðardrag yrði yfir eða í grennd við landið út mánuðinn.
Björn gat ekki sagt til um hvort þessi júlímánuður væri í kaldari kantinum miðað við síðustu ár.