Þeir sem teljast hættulegir eru í forgangi

Maður var í mars dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir …
Maður var í mars dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Við forgangsröðum þannig að þeir sem eru með þyngri refsingar og teljast hættulegir eru boðaðir inn strax. Við látum svona dóma ekki liggja lengi,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, í samtali við mbl.is.

Maður var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi í Landsrétti 4. mars. Hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni af hálfu mannsins 4. maí og liggur því endanlegur dómur fyrir. Í tísti Öfga á laugardag segir að maðurinn hefði verið í útlöndum í júní.

„Ef viðkomandi er í gæsluvarðhaldi fram að dómi þá afplánar hann í beinu framhaldi, en að öðru leyti fáum við dóma til fullnustu þegar þeir eru endanlegir og ef menn eru ekki í gæsluvarðhaldi eru þeir boðaðir inn með nokkrum fyrirvara.“

Frjáls ferða sinna þar til afplánun hefst

Maður sem er hvorki í farbanni né gæsluvarðhaldi er frjáls ferða sinna þar til afplánun hefst, að sögn Erlu Kristínar Árnadóttur, sviðsstjóra fullnustusviðs. Hún segist þó ekki geta tjáð sig um einstök mál.

„Almennt verklag hjá Fangelsismálastofnun er á þá leið að refsingar fyrir mjög alvarleg brot, svo sem kynferðisbrot eru í forgangi. Boðunarbréf vegna slíkra mála eru send dómþola eins fljótt og hægt er eftir að dómur berst stofnuninni, jafnvel degi síðar. Ef menn mæta ekki inn á réttum tíma er handtökubeiðni send lögreglu.“

Plássleysi í fangelsum hafi áhrif á forgangsröðun

Segir Erla að langvarandi plássleysi í fangelsunum hafi haft þau áhrif að stofnunin hefur þurft að forgangsraða boðun til afplánunar.

„Einhverjir eru búnir að vera lengi á boðunarlista en það eru yfirleitt menn með minni háttar brot og yfirleitt menn sem hafa ekki haft samband við stofnunina og óskað eftir að fá að hefja afplánun.

Ef menn hafa samband og óska eftir að fá að hefja afplánun er reynt að verða við því. Það er því ekki hægt að segja að margir sem vilja hefja afplánun þurfi að bíða lengi á boðunarlistanum og alls ekki menn með langa dóma.“

Menn þurfi tíma til að ganga frá sínum málum

Þá geta dómþolar óskað eftir fresti á afplánun eða sótt um náðun.

„Þeir hafa nokkrar leiðir til þess að fresta afplánun sinni og það getur líka alveg verið skiljanlegt, menn þurfa einhvern tíma til að ganga frá sínum málum, þeir eru jafnvel að fara í margra ára afplánun og þurfa kannski að ganga frá húsnæði, vinnu, fjölskyldumálum og öðru.“

Það sé svo stofnunarinnar að meta hvort viðkomandi sé hæfur til að fá frest. Litið er til þess hvort hann sé hættulegur, virkur í afbrotum eða hvort óhætt sé að veita honum stuttan frest á afplánun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert