Andlát: Guðmundur Magnússon

Guðmundur Magnússon.
Guðmundur Magnússon.

Guðmundur Magnússon, fv. skólastjóri og fræðslustjóri, lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Hafnarfirði föstudaginn 8. júlí, 96 ára að aldri.

Guðmundur fæddist 9. janúar 1926 á Reyðarfirði og ólst þar upp. Forldrar hans voru Magnús Guðmundsson, verslunarmaður, og Rósa Sigurðardóttir, húsmóðir. Eignuðust þau níu börn á tíu árum.

Guðmundur vann ýmis störf á sínum yngri árum, einkum til sjós og var m.a. á síldarbáti frá Raufarhöfn. Hann nam við Héraðsskólann á Laugarvatni og lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum. Ungur að árum, eða haustið 1948, leysti hann skólastjórann af í grunnskólanum á Reyðarfirði. Ári síðar hóf hann störf við Laugarnesskóla í Reykjavík og kenndi þar til 1960. Árið 1961 tók hann við nýstofnuðum Laugalækjarskóla sem skólastjóri og aftur var hann fenginn til að stjórna nýjum skóla, Breiðholtsskóla, haustið 1969. Guðmundur flutti á heimaslóðir árið 1977 er hann var ráðinn fræðslustjóri Austurlands. Því starfi gegndi hann farsællega í 20 ár og kom m.a. á fót námi í sérkennslufræðum á Hallormsstað.

Guðmundur tók ríkan þátt í nefndar- og félagsstörfum, var m.a. fulltrúi leikmanna á Austurlandi á kirkjuþingi um árabil. Hann var organisti í Reyðarfjarðarkirkju um skeið og stýrði samsöng eldri borgara í Kópavogi. Hann var varaborgarfulltrúi Alþýðuflokksins í Reykjavík árin 1974-77. Eftir að Guðmundur lauk störfum skrifaði hann bókina Saga Reyðarfjarðar 1883-2003 en áður skrifaði hann m.a. Skólasögu Reyðarfjarðar, auk fjölda greina í blöð og tímarit.

Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Anna Arnbjörg Frímannsdóttir, f. 1930 á Skriðuklaustri. Börn þeirra: Stúlka, f. 26.11. 1949, d. 26.11. 1949, Sigríður, f. 1950, líffræðingur í Kópavogi, Magnús, f. 1952, tölvunarfræðingur í Reykjavík, Rósa Hrund, f. 1954, fiðluleikari í Reykjavík, Guðmundur Frímann, f. 1962, vélvirki á Reyðarfirði, og Arnbjörg, f. 1965, sjúkraþjálfari í Reykjavík. Barnabörnin eru 10 talsins, barnabarnabörnin 20 og eitt barnabarnabarnabarn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert