Fjórir heppnir miðaeigendur hrepptu fimm milljónir króna hver þegar dregið var í Happdrætti Háskóla Íslands í kvöld.
Miðaeigendurnir eiga það sameiginlegt að vera með sama miðanúmerið og fengu því allir hæsta vinning í útdrættinum, 5 milljónir króna, að því sem fram kemur í tilkynningu frá Happdrætti Háskóla Íslands.
Fjöldi annarra vinninga gekk út í kvöld. Einn miðaeigandi hreppti 500 þúsund króna vinning, en þar sem hann er með trompmiða fimmfaldast vinningurinn og fær hann því 2,5 milljónir króna í sinn hlut.
Átta miðaeigendur fengu svo eina milljón króna hver.
„Milljónaveltan gekk ekki út að þessu sinni og verður því fjórföld í ágúst og 40 milljónir í pottinum.“