Heimsfaraldurinn hlífði börnunum

Frá bólusetning barna á aldrinum 12 til 15 ára.
Frá bólusetning barna á aldrinum 12 til 15 ára. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrjú af hverjum fjórum börnum sem smitast höfðu af Covid-19 á Íslandi fyrir haustið 2021 sýndu meðalmikil einkenni en tæplega fjórðungur barna var einkennalaus. Þá urðu engin börn alvarlega veik á þessu tímabili en þau höfðu ekki verið bólusett.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem læknarnir Ásgeir Haraldsson, Kristín Björnsdóttir og Þorvaldur Löve unnu um áhrif Covid-19 á börn, undir stjórn Valtýs S. Thors hjá Barnaspítala Hringsins.

Ásgeir telur bólusetningar barna engu að síður skynsamlegar. „Ég held að bólusetningar barna hafi átt stóran þátt í því að Delta [afbrigði kórónuveirunnar] varð ekki verra en það varð. Þó að börnin sjálf verði ekki jafn alvarlega veik þá eru þau smitberar og þau fara að heimsækja ömmur og afa sem eru viðkvæmari fyrir veirunni.“

Ásgeir Haraldsson.
Ásgeir Haraldsson.

Frá upphafi var ljóst að börn veikjast síður af Covid en fullorðnir. Fyrir því eru nokkrar mögulegar skýringar, að sögn Ásgeirs. Í fyrsta lagi notar veiran tilteknar yfirborðssameindir til að festast og valda sýkingu. Þessar sameindir eru síður þroskaðar í börnum. Í öðru lagi bendir Ásgeir á að Covid-19 sé kórónuveira, en kórónuveirur geta einnig valdið ýmsum öðrum sýkingum sem eru algengari meðal barna. Þannig kunna einhver börn að hafa myndað krossónæmi eftir nýleg smit af annarri kórónuveiru. Í þriðja lagi voru viðbrögð líkamans við smiti helst í formi bólgusvars, en í börnum er slíkt svar bæði hægara og mildara.

Íslenska rannsóknin hefur sérstöðu í ljósi þess að niðurstöður hennar sýna lægra hlutfall veikinda meðal smitaðra barna. Ásgeir segir það helst skýrast af því hve auðvelt var að hafa uppi á smituðum börnum hér á landi, enda hafi greiningar og rakning hér á landi verið afbragðsgóð. 

Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert