Karítas Ríkharðsdóttir
„Þetta var skemmtilegt en maður verður einhvern veginn mikið meira stressaður á að vera í stúkunni. Lifir sig allt öðruvísi inn í leikinn,“ segir Árni Vilhjálmsson, knattspyrnumaður og kærasti Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, landsliðsfyrirliða í fótbolta.
Árni fylgdist með leik Íslands og Belgíu úr stúkunni á akademíuvelli Manchester City á Englandi á sunnudaginn, ásamt fjölskyldu og fjölda annarra Íslendinga.
„Þegar maður sér leikinn ekki af vellinum heldur hefur yfirsýn yfir hann þá þarf maður að halda aftur af sér,“ bætir hann við.
Árni heldur til, ásamt fjölskyldu sinni og fjölskyldu Söru, í húsi aðeins utan við Manchester. Hann segist flakka töluvert á milli staða til að geta hitt Söru þegar möguleiki er á en Árni og Sara eiga sjö mánaða gamlan son saman sem er með Árna í för.
„Við náum alveg að eyða smátíma með henni. Eitt lítið knús getur breytt deginum þó að það séu ekki nema fimm mínútur,“ segir Árni. „Það róar öll mömmuhjörtu að sjá börnin sín þó að það sé ekki nema í litla stund.“
Árni segir það koma sér mest á óvart hvað börn séu í raun aðlögunarfær. Ragnar Frank Árnason, sonur Árna og Söru, hefur unað sér vel við mikil ferðalög, mikinn hita og hávaða á keppnisvellinum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.