Stálu verðmætum frá ungum fótboltamönnum

Tilkynnt var um þjófnað hjá íþróttafélagi í hverfi 113 laust fyrir klukkan sex í gærkvöldi. Búið var að fara í búningsklefa og stela verðmætum frá ungum mönnum sem voru að iðka fótbolta.

Kemur fram í dagbók lögreglu að stolið hafi verið farsímum, lyklum af bifreiðum o.fl.

Þá voru afskipti höfð af þremur ungum mönnum vegna neyslu fíkniefna í bifreið í hverfi 220. Ætluð fíkniefni voru haldlögð.

Nokkuð var um að bifreiðar voru stöðvar í gærkvöldi og í nótt. Bifreið var stöðvuð í hverfi 108 þar sem ökumaður reyndist vera sviptur ökuréttindum, bifreið var stöðvuð í hverfi 104 þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og í hverfi 105 var ökumaður grunaður um ölvun við akstur.

Auk þess voru tvær bifreiðar stöðvar í hverfi 201 eftir hraðamælingu en þeir óku á 74 km/klst þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Ökumennirnir viðurkenndu brotin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert