„Mér finnst vel koma til greina að skoða það að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, en það verður hins vegar að skoða það allt í samhengi við heildartekjur og -útgjöld sveitarfélagsins.“ Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar og oddviti Viðreisnar í borginni.
Með hækkun fasteignamats fyrir komandi ár munu fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði að óbreyttu hækka um 23,6% á höfuðborgarsvæðinu og um 9,6% á atvinnuhúsnæði. Þegar hefur forystufólk nokkurra sveitarfélaga lýst því yfir að fasteignagjöld á íbúðahúsnæði verði lækkuð til að mæta þessum skörpu hækkunum.
Í gær fjallaði mbl.is um að nokkur sveitarfélög hefðu einnig gefið fyrirheit um að lækka fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði vegna þessa. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda gagnrýndi þó að ekkert hefði heyrst frá Reykjavíkurborg og sagði það vonbrigði.
Einu svörin frá borginni hingað til hafa verið frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra sem sagði að ákvörðun um gjaldaprósentu yrði ekki tekin fyrr en við gerð fjárhagsáætlunar.
Spurð hvort til greina komi að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í ljósi þessara hækkana segir Þórdís Lóa að flokkurinn og hún hafi mjög skýra sýn um að vilja lækka þessa skatta á atvinnuhúsnæði. Þannig hafi Viðreisn haft það sem kosningaloforð að lækka skattaprósentuna úr 1,6% niður í 1,55% á kjörtímabilinu. Í samkomulagi flokka sem mynda meirihluta í Reykjavík kemur fram að lækka eigi þessa skatta fyrir lok tímabilsins. „Síðan verður náttúrulega alltaf að skoða aðstæður og efnahagsástand hverju sinni og þess vegna samþykktum við að vísa þessari tillögu Sjálfstæðismanna til gerðar fjárhagsáætlunar,“ segir Þórdís Lóa.
Vísar hún þar til tillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fyrir borgarstjórn í júní um að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatta á bæði atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði og mæta þeim hækkunum sem voru á fasteignagjöldum. Var samþykkt í borgarstjórn að vísa tillögunni til vinnslu fjárhagsáætlunar borgarinnar.
Þórdís Lóa segir að þetta muni allt koma til skoðunar nú í lok sumar eða byrjun hausts þegar vinnan við fjárhagsáætlunina hefst. Hún tekur fram að til að taka svona ákvarðanir þurfi að liggja fyrir útreikningar og gögn sem hún segir að eigi að leiða alla þessa vinnu áfram.
„Í grunninn þá höfum við haft þá trú og ég hef haft þá trú að við getum lækkað skatta á atvinnuhúsnæði í Reykjavík og mér finnst út frá samkeppni að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu séu á svipuðu róli,“ segir Þórdís Lóa.
Eins og sjá má á meðfylgjandi grafi eru skattar á atvinnuhúsnæði í dag hæstir í Reykjavík, en skammt þar á eftir kemur Garðabær með 1,55% og Mosfellsbær með 1,54%. Í Kópavogi er lagður á 1,44% skattur á atvinnuhúsnæði og í Hafnarfirði er hlutfallið 1,4%. Læst er það á Seltjarnarnesi, eða 1,188%, en þar er einnig hlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði það lægst á höfuðborgarsvæðinu, en aðeins 16,85% af fasteignaskatti sem innheimtur er á Seltjarnarnesi er vegna atvinnuhúsnæðis. Til samanburðar er hlutfallið 63,47% í Reykjavík samkvæmt tölum frá Sambandi sveitarfélaga.
Fasteignaskattar á íbúðahúsnæði í Reykjavík eru hins vegar í lægri kantinum, eða 0,18% og hafa verið óbreyttir undanfarin ár. Aðeins Garðabær (0,179%) og Seltjarnarnes (0,175%) eru með lægri skatta á höfuðborgarsvæðinu. Í Kópavogi er hlutfallið 0,2%, í Mosfellsbæ 0,203% og í Hafnarfirði 0,246%.