Sýnilegt er að Síldarvinnslan ætlar með kaupum á Vísi hf. í Grindavík að veðja á Suðurnes sem framtíðarsvæði í matvælavinnslu, hvort heldur er í veiðum, vinnslu eða eldi. Þetta segir Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur.
„Auðvitað má alltaf búast við einhverjum breytingum með nýjum eigendum að fyrirtæki. Ég geri samt ekki ráð fyrir neinum kollsteypum, að minnsta kosti ekki svona til að byrja með,“ segir formaðurinn.
Vísir hf. er með fjórðu mestu aflaheimildirnar í þorski á landinu eða 5,4% hlutdeild í heildaraflamarki í tegundinni. Það er því eðlilegt að af þeim heimildum sem fylgja Vísi eru langmestar í þorski eða 9.469 tonn og er verðmæti þeirra 3,5 milljarðar króna samkvæmt meðalverði.