Vinir urðu fyrir vonbrigðum

Vinir Kópavogs kærðu deiliskipulag í miðbæ Kópavogs.
Vinir Kópavogs kærðu deiliskipulag í miðbæ Kópavogs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vinir Kópavogs segja niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um deiliskipulag í miðbæ Kópavogs í Hamraborg valda vonbrigðum. Þá veki það furðu að nefndin hafi ekki fjallað efnislega um sjö af tólf kæruliðum samtakanna.

Nefndin vísaði frá Kæru Vina Kópavogs, á grundvelli aðildarskorts, en tók málið engu að síður til efn­is­legr­ar meðferðar enda var fall­ist á að til­greindir fast­eigna­eig­end­ur, sem einnig kærðu, ættu lögvar­inna hags­muna að gæta af úr­lausn þess.

Segir í tilkynningu frá Vinum Kópavogs að þau muni óska eftir skýringum á því hvers vegna aðeins sjö kæruliðir hafi verið teknir fyrir. Auk þess ætli þau sér að athuga hvort tilefni sé til að leggja málið fyrir umboðsmann Alþingis eða dómstóla til að fá úr því skorið hvort nefndinni beri ekki að taka alla ákæruliði til efnislegrar umfjöllunar.

Ágallarnir ekki nægilegir

Benda Vinir Kópavogs á það að í umfjöllun nefndarinnar hafi komið fram að ágallar voru á undirbúningi og ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs um deiliskipulagið. Ekki hafi verið nægjanlega vel gerð grein fyrir mati á umhverfisáhrifum og að húsakönnun hafi verið ábótavant.

Meirihluti nefndarinnar hafi þó komist að þeirri niðurstöðu að ágallarnir væru ekki nægjanlega miklir til að fella skipulagið úr gildi en tveir af fimm nefndarmönnum hafi talið ágallana nógu alvarlega til þess og skiluðu þeir séráliti.

Ekki mögulegt að mæta kröfum um aðgengi fatlaðra

Meðal þeirra sem kærðu voru íbú­ar sem glíma við fötl­un, og málið laut að miklu leyti að því hvort fram­kvæmd­ir á svæðinu væri í sam­ræmi við lög um rétt­indi fatlaðs fólks. 

Vinir Kópavogs telja að ekki sé mögulegt að mæta lögbundnum kröfum um aðgengi fatlaðra án þess að gera gagngerar breytingar á fyrirliggjandi deiliskipulagi. Þeir segjast hins vegar vongóðir um að það takist í breiðu samstarfi.

„Bæjarfulltrúar Vina Kópavogs munu standa vaktina í bæjarstjórn og reyna að koma málinu í uppbyggilegan farveg í góðu samstarfi við aðra bæjarfulltrúa,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert