Breskur ferðamaður sem skipulagði af kostgæfni 14 daga hjólafrí á íslandi bíður enn eftir hjólinu sínu, ellefu dögum eftir að hann kom til landsins. Ferðamaðurinn, Simon Owens, flaug með Icelandair til Reykjavíkur 2. júlí síðastliðinn en hann hefur hvorki fengið hjólið sitt né tjald og farangur.
Hefur þetta valdið Owens óvæntum kostnaði upp á 2.000 pund, eða því sem nemur um 330.000 íslenskum krónum.
Í hálft ár skipulagði Owens ferð sína um Ísland en hann ætlaði að hjóla hringveginn. Úr því varð ekki og ákvað Owens eftir nokkra daga að leigja sér húsbíl. Honum hefur orðið lítið ágengt með að fá fregnir af farangrinum.
„Mér líður eins og ég fari í hringi og allir haldi að þetta sé einhverjum öðrum að kenna,“ sagði Owens við breska ríkisútvarpið.
„Ég er heppinn að ég er í vinnu, á sparnað og kreditkort en þessi aukalegi kostnaður hefði getað borgað fyrir þrjú eða fjögur hjólreiðaferðalög.“
Owens hafði hlakkað til ferðarinnar mánuðum saman og er því ósáttur með stöðuna. Hann segir þó að Ísland hafi heillað hann og að landslagið sé einstakt.
„Ég hef verið mjög ánægður með reynsluna hér en verð að koma aftur til þess að fara í ferðina sem ég skipulagði.“
Mikil vandræði hafa verið á flugsamgöngum í Evrópu undanfarið og er Owens síður en svo eini farþeginn í álfunni sem hefur lent í veseni með að endurheimta farangur.