Guðrún Sigríður Arnalds
Áhugi bandarískra ferðamanna á Íslandi sem áfangastað mun vafalaust aukast þar sem bandaríkjadalur hefur styrkst á móti öðrum gjaldmiðlum. Þetta segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri Íslandsstofu.
Bandaríkjamenn voru um þriðjungur ferðamanna til Íslands í júní og auk þess gerði Íslandsstofa neytendakönnun í Bandaríkjunum í vor þar sem sýndur var metáhugi á ferðum til Íslands.
„Þetta er alltaf smá áskorun fyrir ferðaþjónustuna þar sem Ísland telst frekar dýr áfangastaður, þannig þegar ferðamenn geta notið hagstæðari afþreyingar og gistingu þá vinnur það klárlega með okkur,“ segir Sigríður.
Sigríður segir stofnunina ætla að halda áfram með stöðugar aðgerðir í Bandaríkjunum og leggja aukna áherslu á herferðir þar sem þær hafa gengið sérstaklega vel, en ferðir þar sem farið er með íslensk ferðaþjónustufyrirtæki til að hitta bandaríska ferðastarfsmenn hafa áorkað miklu hvað varðar aukinn ferðamannafjölda.
„Jafnt og stöðugt erum við að leggja meiri áherslu á bandarískan markað, við erum með reglulegar herferðir í gangi, til dæmis eru einhverjar þeirra á vegum markaðsverkefnisins Ísland saman í sókn og síðan pössum við að almannatengsl séu virk í Bandaríkjunum.“
Sigríður segir að samfélagsmiðlaauglýsingar sem voru frá febrúar til júní í Bandaríkjunum og Þýskalandi hafi gengið vonum framar, en sú næsta muni miða að Bretlandi og Bandaríkjunum og eigi að auka áhuga á vetrarferðum.