Björn Zoëga nýr stjórnarformaður Landspítala

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Heilbrigðisráðherra hefur skipað stjórn Landspítala til tveggja ára samkvæmt breytingarlögum sem samþykkt var af Alþingi 13. júní.

Nýja stjórn skipa eftirfarandi:

  • Björn Zoëga, forstjóri og bæklunarskurðlæknir, formaður stjórnar.
  • Gunnar Einarsson, fv. bæjarstjóri og doktor í stjórnun og menntunarfræðum. 
  • Höskuldur H. Ólafsson, ráðgjafi og viðskiptafræðingur.
  • Ingileif Jónsdóttir, deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu og prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands.
  • Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri með meistarapróf í stjórnun og stefnumótun, varaformaður stjórnar. 
  • Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri og rekstrarfræðingur, varamaður.
  • Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins með meistarapróf í mannauðsstjórnun, varamaður.
  • Marta Jóns Hjördísardóttir, hjúkrunarfræðingur, áheyrnarfulltrúi starfsmanna.
  • Örvar Gunnarsson, krabbameinslæknir, áheyrnarfulltrúi starfsmanna.
  • Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, náttúrufræðingur, varamaður áheyrnarfulltrúa.

Marka Landspítala langtímastefnu

Stjórn spít­al­ans í sam­ráði við for­stjóra mun marka Land­spít­ala lang­tíma­stefnu í sam­ræmi við stefnu­mörk­un ráðherra og hlut­verk stofn­un­ar­inn­ar sam­kvæmt lög­um.

Í stjórn­inni munu sitja ein­stak­ling­ar sem hafa þekk­ingu á rekstri og áætlana­gerð, á heil­brigðisþjón­ustu, vís­inda­rann­sókn­um á heil­brigðis­sviði, mennt­un heil­brigðis­stétta og á op­in­berri stjórn­sýslu og regl­um stjórn­sýslu­rétt­ar. Stjórn­in mun því styrkja og styðja við fag­leg­an og fjár­hags­leg­an rekst­ur spít­al­ans.

Tryggir meiri rýni og ígrundaðri ákvarðanir

Björn Zoëga, formaður nýrrar stjórnar Landspítalans og forstjóri Karólínska-háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi, hefur víðtæka þekkingu og reynslu af rekstri heilbrigðisstofnana bæði innanlands og á alþjóðavettvangi. Hann telur að nýtt fyrirkomulag tryggi meiri rýni og þar með betur ígrundaðar ákvarðanir. 

„Ég er afar þakklátur því trausti sem mér er sýnt með þessari skipan. Ég ber hag íslensks heilbrigðiskerfis fyrir brjósti og er sannfærður um að reynsla mín muni nýtast vel í þeim verkefnum sem eru fram undan,“ er haft eftir Birni í tilkynningu.

„Helstu spítalar Norðurlandanna gera ráð fyrir því að stjórn veiti forstjóra og stjórnendum á spítölum stuðning og rýni ákvarðanatöku. Slíkt fyrirkomulag er mikilvægt, ekki aðeins út frá rekstri heldur út frá hagsmunum sjúklinga, starfsmanna og samfélagsins. Ég er sannfærður um að það verður einnig til heilla hér á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert