Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, býður sig fram til formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Ég þekki sambandið vel, hef verið varaformaður sl. 4 ár og veit að mín þekking og reynsla gæti nýst vel í þessu hlutverki,“ skrifar Heiða Björg á Facebook-síðu sína.
Fyrr í dag greindi Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, frá því að hún sæktist eftir embættinu.
„Ég vil halda áfram að nútímavæða sambandið og opna það sem samráðs- og samstarfsvettvang sveitarstjórnarfólks. Formaður Sambandsins þarf að tala fyrir þeirri framþróun sem við viljum sjá í íslensku samfélagi, þar eru sveitarfélögin lykilaðilar. Við þurfum að auka samstarf við landshlutasamtök, þjappa saman landsbyggð og höfuðborg því okkar markmið falla vel saman,“ skrifar Heiða Björg.
„Það þarf að klára tekjuskiptingu þannig við séum fær um að veita þá öflugu þjónustu sem við viljum veita. Þannig byggjum við upp öfluga og spennandi byggð um allt land, húsnæði, atvinnu, menntun og velferð.“