Í öryggisgæslu eftir árásir á fanga og fangaverði

Maðurinn réðst á bæði fanga og fangaverði í fangelsinu á …
Maðurinn réðst á bæði fanga og fangaverði í fangelsinu á Hólmsheiði í janúar. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í öryggisvistun á viðeigandi stofnun eftir líkamsárás á samfanga sinn á Hólmsheiði sem og árás á tvo fangaverði á Hólmsheiði, þar sem hann veitti m.a. ítrekuð högg og lá annar fangavarðanna meðvitundarlaus eftir.

Árásirnar áttu sér báðar stað í janúar, með fjögurra daga millibili.

Landsréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms um að maðurinn skyldi sæta öryggisvistun til 5. ágúst, en mál hans vegna líkamsárásanna er nú til meðferðar hjá héraðsdómi.

Töldu bæði héraðsdómur og Landsréttur að með tilliti til andlegrar heilsu mannsins sé það mat dómsins að ætla megi að hann muni halda áfram afbrotum sínum, þar á meðal með ofbeldisfullri hegðun, fari hann frjáls ferða sinna. Því sé nauðsynlegt að koma í veg fyrir áframhaldandi brot hans og verja aðra fyrir árásum hans.

Í úrskurði héraðsdóms er nánar greint frá þeim árásum sem maðurinn er undir rökstuddum grun að hafa gert. Er meðal annars horft til framburðar samfangans, fangavarðanna og myndbandsupptaka úr öryggiskerfi fangelsisins.

Kýldi samfanga í andlitið

Í fyrra málinu sáu fangaverðir manninn fara inn í fangaklefa annars fanga og brugðust verðirnir við með að skipa honum þaðan út sem maðurinn gerði. Um leið óskaði samfanginn eftir aðstoð og sáu þá fangaverðirnir að hann sat þar blóðugur á gólfinu og var blóð á bæði gólfi og veggjum. Hlaut samfanginn sár í andliti, sprungu í tönn og heilahristing. Sagði hann að maðurinn hefði komið inn í klefann og kýlt sig þrisvar í andlitið og svo yfirgefið fangaklefann.

Lét höggin dynja á meðvitundarlausum fangaverði

Í seinna málinu kemur fram að maðurinn hafi ráðist á fangavörð inn í fangaklefa. Var annar vörður fyrir utan klefann sem fór inn þegar hann heyrði lætin og sá þar hvar fanginn lét höggin dynja á fyrri fangaverðinu sem lá meðvitundarlaus og blóðugur á gólfinu. Reyndi seinni fangavörðurinn að stöðva fangann sem réðst þá að seinni fangaverðinum og veitti honum ítrekuð högg.

Fékk annar fangavörðurinn brot á andlitsbeinum, nefbeinbrot, tognun á öxl, mar á höfði, brjóstkassa og frekari áverka. Hinn fangavörðurinn hlaut bólgu á enni, skurð og mar á augabrún, auk sárs á höfði og bólgu á vör. Tekið er fram að það sem fram komi í eftirlitsmyndavél á gangi fyrir framan klefann séu í samræmi við frásagnir fangavarðanna. Þá voru föt fangans blóðug eftir árásina og blóð og blóðslettur á veggjum og gólfi klefans. Bar fanginn við minnisleysi í yfirheyrslum hjá lögreglu.

Fangelsismálastofnun áður lýst yfir áhyggjum

Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn eigi við ýmsan geðrænan vanda að etja og sé hættulegur öðrum. Þá séu vísbendingar um að geðrænn vandi hans hafi aukist og hann orðið hættulegri á afplánunartímanum, en Fangelsismálastofnun hafði meðal annars lýst yfir áhyggjum af stöðu fangans, undarlegrar hegðunar, ofskynjana og auknum fjölda hótana og ofbeldi gegn starfsfólki og öðrum.

Vegna ástand fangans var hann vistaður á öryggisdeild á Hólmsheiði hluta afplánunartímans til að lágmarka skaða sem hann gat valdið öðrum.

Páll Winkel fangelsismálastjóri. Fangelsismálastofnun hafði áður lýst yfir áhyggjum af …
Páll Winkel fangelsismálastjóri. Fangelsismálastofnun hafði áður lýst yfir áhyggjum af ástandi mannsins, meðal annars vegna undarlegrar hegðunar, ofskynjana og auknum fjölda hótana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matsmaður mælti með gæslu á viðeigandi stofnun

Dómurinn fékk dómskvaddan matsmann til að meta manninn og var það niðurstaðan að 15. Gr almennra hegningarlaga um sakhæfi ætti við í tilviki mannsins. Þ.e. að ekki skuli refsa mönnum sem m.a. sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða annars samsvarandi ástands eru alls ófærir á þeim tíma sem þeir brjóta af sér til að stjórna gerðum sínum.

Þá efaðist matsmaðurinn mjög um að refsing beri árangur í tilfelli mannsins og ljóst af sögu hans, gríðarlegri fíkn í samblandi við alvarlegan aðsóknargeðklofa og sögu um hömlulaust ofbeldi að hann gæti verið hættulegur. Því væri brýnt að gæta ítrasta öryggis við meðferð hans og gera ráðstafanir til að varna því að háski verði af honum. Mælti matsmaðurinn með því að maðurinn myndi sæta gæslu á viðeigandi stofnun.

Sjö dómar á síðustu fimm árum

Maðurinn hefur á síðustu 5 árum hlotið sjö refsidóma, samtals 57 mánaða fangelsi, fyrir margvísleg brot, m.a. auðgunar-, fíkniefna- og vopnalagabrota, auk eignarspjalla og ráns. Hann hefur ítrekað fengið reynslulausn en svo þurft að afplána eftirstöðvarnar. Hann fékk síðast 18 mánaða dóm í lok árs 2020 og lauk afplánun núna í maí. Hins vegar var hann hnepptur í gæsluvarðhald vegna fyrrnefndra árása.

Taldi héraðsdómur að stígandi væri í brotastarfsemi mannsins og að í raun hafi rof í brotaferli hans aðeins helgast af því að hann hafi verið sviptur frelsi. Hins vegar hafi það þó ekki reynst raunin nú í síðustu afplánun og er þá vísað til fyrrnefndra árása.

Telur héraðsdómur að ætla megi að brot mannsins myndu halda áfram væri hann frjáls ferða sinna. Hann hafi „sýnt af sér hömlulaust ofbeldi og ógnandi hegðun þannig að hann geti verið hættulegur.“  Er því fallist á með ákæruvaldinu að hneppa hann í öryggisgæslu til 5. ágúst og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert