Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Karl Frímannsson í embætti skólameistara Menntaskólans á Akureyri til fimm ára frá 1. ágúst.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir að Karl hafi starfað sem sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar undanfarin fjögur og hálft ár. Áður var hann meðal annars sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar og skólastjóri Hrafnagilsskóla í 13 ár. Þá starfaði hann í mennta- og menningarmálaráðuneytinu um skeið, bæði sem verkefnastjóri og aðstoðarmaður ráðherra. Karl hefur starfsheitið kennari og viðbótarmenntun í stjórnun.
Sérstök hæfninefnd komst að þeirri niðurstöðu að þrír af sjö umsækjendum kæmu helst til álita til að gegna embættinu. Meðal þeirra var Karl Frímannsson sem mennta- og barnamálaráðherra mat hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu.