Kötturinn sem borgin týndi komin í leitirnar

Kötturinn Nóra.
Kötturinn Nóra. Ljósmynd/Aðsend

Kötturinn Nóra, sem Reykjavíkurborg haldlagði um miðjan júní og týndi svo, er kominn í leitirnar, um mánuði síðar.

Reykjavíkurborg haldlagði köttinn eftir ítrekaðar kvartanir nágranna hans. Samkvæmt eigendum kattarins, Guðmundi Felixsyni og Þuríði Blævi Jóhannsdóttur, gerði borgin ekkert til þess að hafa uppi á eigendum Nóru.

„Eft­ir tölu­verðan tíma náum við loks­ins að hafa sam­band við borg­ina og við frétt­um það þá fyrst að hún er búin að vera týnd í sól­ar­hring,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is 13. júní sl. 

Ætla að dekra við Nóru næstu daga

Í færslu á Facebook greinir Guðmundur frá því að Nóra sé komin heim. Hann vonast til þess að málið verði til þess að Reykjavíkurborg breyti sínu verklagi.

„Hún týndist í Laugardalnum og sást oft í Fjölskyldugarðinum en hvorki starfsfólki garðsins né okkur tókst að fanga hana, enda var hún orðin gríðarlega hvekkt og hrædd við búr,“ segir í færslu Guðmundar. 

„Loksins í dag náði starfsfólk garðsins að góma hana og koma henni heim. Hún malar og er ánægð að vera heima hjá sér. Vill bara kúra og láta klappa sér. Hún er með skrámu á nefinu en að öðru leyti sjálfri sér lík. Við heimilisfólkið ætlum aldeilis að dekra við hana næstu daga.
Við erum þakklát fyrir hjálpina sem við fengum frá starfsfólki Reykjavíkurborgar á meðan Nóra var týnd. Starfsfólkið á svæðinu sá til þess að hún fengi að borða og þau létu okkur vita þegar til hennar sást.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert