Dreifiveitur höfðu síðastliðinn mánudag lokað fyrir notkun á sjö neysluveitum eftir að fyrirkomulagi á raforkumarkaði var breytt með reglugerð 20 maí síðastliðinn.
Þar af höfðu Veitur, sem er stærsta dreifiveita landsins, lokað fyrir sex neysluveitur og Norðurorka lokað fyrir eina.
Þetta kemur fram í svari Orkustofnunar við fyrirspurn mbl.is.
Þar segir að þessar tölur bendi til þess að flestir viðskiptavinir velji sér nú raforkusala áður en til lokana kemur af hálfu dreifiveitna.
„Hér hefur aukin upplýsingamiðlun af hálfu fyrirtækja og stofnana skipt máli um mikilvægi þess að viðskiptavinir hafa formlegan samning um kaup á raforku," segir í svarinu.
„Orkustofnun hvetur áfram notendur til að velja sér raforkusala innan 7 daga frá því að þeir tengjast dreifiveitu. Þannig má komast hjá kostnaði og fyrirhöfn.“