Tveggja mánaða bið er eftir tíma hjá háls-, nef og eyrnaskurðlæknum, þvagfæraskurðlæknum og bæklunarskurðlæknum, sé bókað í gegnum vef Heilsuveru. Um er að ræða tíma hjá læknum sem eru starfandi á einkareknum stofum.
Ekki var laus einn tími næsta árið hjá þremur lýtalæknum sem þar eru skráðir og ekki heldur hjá brjóstaskurðlækni. Hjá meirihluta sérgreinalækna í Heilsuveru er biðin yfir tveimur mánuðum.
Aftur á móti er styttri bið eftir augnlæknum, almennum skurðlæknum og kvensjúkdómalæknum og er eins auðvelt að komast að hjá gigtarlækni.
Jónas Guðmundsson, staðgengill Óskars Reykdalssonar forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að framboð af tímum í gegnum Heilsuveru sé minna vegna þess að fólk bóki sjaldan í gegnum Heilsuveru. „Þetta hefur farið hægt af stað,“ segir hann.
„Þessar tímabókanir hafa farið hægt af stað alls staðar, hjá opinberu stofnununum líka,“ segir hann. Tímum á heilsugæslustöðvunum sé til dæmis haldið eftir, fyrir „akút“ mál.
„Það er misjafnt hvernig sérgreinalæknarnir gera þetta. Það fara fullt af tilvísunum út á dag. Þau hafa sitt fyrirkomulag um hvernig þau bóka tímana,“ segir hann. „Það er meiri tilhneiging til þess að þetta fari frá heimilislækni fyrst og sérgreinalæknar hafa farið fram á það sjálfir,“ segir hann.
Ekki hafa enn tekist samningar á milli Sjúkratrygginga Íslands og sjálfstætt starfandi sérgreinalækna um þjónustu þeirra og starfa þeir því enn án samnings til 30. nóvember næstkomandi, samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra.