Mannbjörg á Breiðafirði

Séð yfir Breiðafjörð.
Séð yfir Breiðafjörð. mats.is

Mannbjörg varð í morgun þegar tveimur mönnum var bjargað úr bát á Breiðafirði sem tekinn var að leka. Komust mennirnir í nærstaddan bát, en skömmu síðar var bátur þeirra kominn á hliðina og maraði í hálfu kafi.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að neyðarkall hafi borist kl 7:20 í morgun frá bátnum, en hann var þá staddur á miðjum Breiðafirði. Mikill leki hafði komið að bátnum og höfðu dælur ekki undan að dæla vatni úr bátnum. 

Þegar var kallað á nærstadda báta og þyrla boðuð út á hæst forgangi. Sex mínútum síðar, eða klukkan 7:26 var búið að bjarga báðum mönnunum um borð í nærstaddan bát. Sem fyrr segir var bátur tvímenninganna stuttu síðar kominn á hliðina og maraði í hálfu kafi.

Björgunarskipið Björg frá Rifi fór á vettvang og er að skoða möguleika á að draga bátinn í land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert