Ómögulegt að segja til um aðrar gerlegar aðgerðir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að aðallega verði lögð áhersla á bólusetningar hvað varðar viðbrögð við Covid-19 í haust. Ómögulegt er að segja til um aðrar gerlegar aðgerðir, að mati Þórólfs sem segir áframhaldandi viðbrögð ráðast af því hvaða afbrigði Covid-19 verði ríkjandi á hverjum tíma.

60 ára og eldri fá líklega viðbótarskammt

Þórólfur segir að haustið sé ófyrirsjáanlegt, en hann greindi frá því í viðtali við mbl.is fyrr í vikunni að 60 ára og eldri geti hugsanlega mætt í viðbótarbólusetningu í haust, hvort sem það sé fjórða eða fimmta sprautan.

„Við þurfum að aðlaga aðgerðir í samræmi við hegðun veirunnar, en það er ekki hægt að planleggja langt fram í tímann því þá þarf kannski að breyta stórtækum áformum,“ svarar Þórólfur, spurður hvort aukning smita muni hafa áhrif á skólastarfsemi í haust og hvort þörf sé á takmörkunum.  

Hvetur fólk til að nýta sér bólusetningar

Ómíkrón-afbrigði Covid-19 er enn ráðandi hér á landi og mælst er til þess að allir með undirliggjandi vandamál og þeir sem eru 80 ára og eldri láti bólusetja sig með fjórðu sprautunni gegn Covid-19. Hann segir að um helmingur fólks sem náð hefur 80 ára aldri hafi mætt í fjórðu sprautuna, en um 20% þeirra sem eru á aldrinum 70 til 80 ára. 

Möguleiki á endurteknum bólusetningum

Þórólfur segir hugsanlegt að bólusetning verði endurtekin árlega eða jafnvel með styttri millibili eftir því sem tímanum líður: „Þetta er spurning um það hversu lengi verndin dugir. Ef hún dvínar það mikið að fólk verður í hættu á að fá sýkingu hvert haust, þá er möguleiki á endurtekinni bólusetningu á nokkurra mánaða fresti eða ár hvert.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert