Ísland með 150 iðkendur á Eurogym – „Þetta er yndislegt“

Hópar frá Ármanni, Selfossi, Gerplu, Stjörnunni og Aftureldingu taka þátt …
Hópar frá Ármanni, Selfossi, Gerplu, Stjörnunni og Aftureldingu taka þátt fyrir Íslands hönd. Ljósmynd/Aðsend

Eurogym-fimleikahátíðin fer fram í borginni Neuchatel í Sviss dagana 10. til 14. júlí þar sem um 150 íslenskir iðkendur taka þátt. Fararstjóri segir stemninguna í íslenska hópnum vera mjög góða. 

„Þetta er bara yndislegt og þau eru öll að njóta sín alveg í botn í góða veðrinu, prófa alls konar nýja hluti í vinnustofum, kynnast krökkum frá öðrum löndum og svo sýna þau á sýningum yfir vikuna,“ segir Edda Dögg Ingibergsdóttir, afreksstjóri hópfimleika hjá Fimleikasambandi Íslands og einn af fararstjórum íslenska hópsins.

Um er að ræða fimleikahátíð fyrir börn á aldrinum 12 til 18 ára og er hluti af Fimleikar fyrir alla (e. Gymnastics for all). Hópar frá Ármanni, Selfossi, Gerplu, Stjörnunni og Aftureldingu taka þátt fyrir Íslands hönd.

Hóparnir taka þátt í mismunandi vinnustofum eins og dýfingum.
Hóparnir taka þátt í mismunandi vinnustofum eins og dýfingum. Ljósmynd/Aðsend

Sýna fyrir framan stóran áhorfendahóp

Ýmsar vinnustofur eru á hátíðinni þar sem meðal annars er tekið þátt í vatnaleikfimi, sippubandslist, hoppað úr hæð á loftbelg, dýfingum og fleiru.

„Við erum með sýningaratriði og svo tókum við þátt í opnunarhátíðinni þar sem var skrúðganga og annað skemmtilegt. Hóparnir sýna tvisvar sinnum á tveimur mismunandi sviðum,“ segir Edda.

Hátíðin fer fram á tveggja ára fresti þar sem 3000 til 5000 iðkendur taka þátt.

„Þetta er rosalega skemmtilegt og krakkarnir fá að sýna fyrir framan stóran áhorfendahóp. Þetta er hátíð sem átti að halda á Íslandi árið 2020 og var komin langt í skipulagningu þegar það þurfti að fella hana niður vegna faraldursins.“

Hóparnir sýna tvisvar sinnum yfir vikuna.
Hóparnir sýna tvisvar sinnum yfir vikuna. Ljósmynd/Aðsend
Hópur frá Stjörnunni.
Hópur frá Stjörnunni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert