Staðan á vatnsborði lághitasvæða höfuðborgarsvæðisins nálgast hæstu hæðir samanborið við síðustu ár, þar sem öll hitaveita er í sumar rekin á vatni frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjun, en þannig geta Veitur hvílt borholurnar og safnað heitu vatni fyrir veturinn.
Eru þetta jákvæðar fréttir í ljósi umræðu um skort á heitu vatni undanfarið, að því er segir í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.
Vegna aukinnar notkunar þurfi Veitur að leita leiða til að framleiða meira af heitu vatni, með sívaxandi byggð á höfuðborgarsvæðinu í huga, og er borholuhvíld einn liður í því.
Verið er að hvíla borholurnar í lengri tíma en áður hefur verið gert. Stefnt er að því að hvíla þær frá júní og fram í september. Eykur þetta sjálfbærni jarðhitavinnslunnar og lengir líftíma lághitasvæðanna.