Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, kveðst ánægður með áform þýska flugfélagsins Condor um að hefja áætlunarflug til Egilsstaða sumarið 2023. Flugfélagið hyggst einnig hefja áætlunarflug til Akureyrar á sama tíma.
„Þetta eru mjög jákvæðar fréttir. Við í rauninni, fulltrúar sveitarfélagsins, vorum að fá af þessu fregnir núna í morgun, en þetta eru góðar fréttir og við fögnum þessu,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Aðspurður segir hann aðstöðu flugvallarins ágæta. Þó þurfi að ráðast í framkvæmdir og nefnir Björn t.a.m. fleiri akstursbrautir og flughlöð.
„Við höfum verið að taka við leiguflugi að utan. En þarna erum við að tala um reglubundið flug einu sinni í viku, og það er allt annað. Ég treysti Isavia fyrir því að undirbúa afgreiðsluna þannig að það verði ekki vandamál. En svo höfum við verið að horfa til þess að það þarf að fara í framkvæmdir og áframhaldandi uppbyggingu. Það er bara áframhaldandi verkefni sem við munum þrýsta á að farið verði í.“
Fyrirhuguð áform telur Björn vera verulegan áfanga fyrir sveitarfélagið þar sem ekki verði einungis hægt að bjóða ferðamönnum að utan að koma beint til Egilsstaða, heldur verði hægt að bjóða heimamönnum og öðrum þeim sem búa á Íslandi að fljúga beint frá Egilsstöðum til Þýskalands.
Hann segir að ef vel takist til þá verði fleiri félög sem muni horfa til þess möguleika að fljúga til Egilsstaða.