Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Vátryggingafélag Íslands af kröfu manns um greiðslu 72 milljóna króna, vegna alvarlegs umferðarslyss sem hann lenti í árið 2017.
Maðurinn hafði fengið tjón sitt bætt að þriðjungi frá félaginu, en var látinn bera tvo þriðju hluta tjónsins sjálfur í ljósi þess að hann hefði farið í „skemmtiferð“ með ölvuðum ökumanni.
Um var að ræða kröfu að upphæð 142 milljóna króna, en til frádráttar komu 38 milljónir króna sem höfðu þegar verið greiddar, og 32 milljónir króna vegna eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris.
Í slysinu hlaut maðurinn alvarlegan heilaskaða og í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að hann þurfi sólarhringsumönnun út ævina og muni aldrei geta unnið aftur.
Tildrög slyssins voru þau að maðurinn hafði hafði farið í skemmtirúnt ásamt félaga sínum að næturlagi eftir að þeir höfðu „setið að sumbli saman,“ líkt og það er orðað í dóminum.
Ekki var um hefðbundna bifreið að ræða, heldur óhefðbundið ökutæki sem ætlað er til aksturs utan vega. Það var því ekki sami öryggisbúnaður fyrir hendi og í hefðbundinni bifreið, en öryggisbelti voru í tækinu.
Slysið varð klukkan hálf fimm að morgni, en ökutækinu var ekið á gangstéttarkant og yfir gangstétt á ljósastaur. Síðan kastaðist það á klettavegg áður en það valt yfir á hægri hlið.
Í dóminum er því lýst hvernig maðurinn var fastur undir hægri hlið ökutækisins með andlitið við jörðu, þegar lögreglu bar að garði. Fætur hans lágu undir tækinu og undið var upp á líkama hans. Þá fengust engin viðbrögð frá honum.
Athugað var með lífsmörk en engin fundust fyrr en eftir tuttugu mínútna endurlífgun.
Maðurinn hlaut af þessu heilaskaða. Hann glímir í dag við alvarlega hreyfihömlun sem og andlega skerðingu. Var varanlega örorka hans metin eitt hundrað prósent og miski hans 99 stig.
Ágreiningurinn í málinu laut einvörðungu að því hvort VÍS væri rétt að skerða bætur mannsins um tvo þriðju vegna meðábyrgðar hans á slysinu, en hann hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að setjast upp í ökutæki með ölvuðum ökumanni.
Héraðsdómur sagði manninn hafa mátt vita að ökumaður hafi verið ölvaður, enda hafi þeir setið að sumbli saman allt kvöldið og deilt leigubifreið heim til ökumannsins. Þá hafi hann einnig verið vel menntaður og í starfi þar sem ætlast mætti til þess að honum væri ljóst hver áhrif áfengisneyslu hefði á getu fólks til að stjórna ökutækjum.
Þá bar maðurinn fyrir sig að í ljósi þess að slysið hefði haft óvenju mikil áhrif á hann, væri rétt að beita ákvæði skaðabótalaga sem kveður á um að bætur verði ekki lækkaðar vegna eigin sakar ef það þykir ósanngjarnt. Þótti dóminum ekki tilefni til þess að beita ákvæðinu í málinu.