„Allt móður minni að kenna“

Bjarni með prófessor Alan Boyle í Edinborgarháskóla sem einnig sinnti …
Bjarni með prófessor Alan Boyle í Edinborgarháskóla sem einnig sinnti lögmennsku fyrir alþjóðlega dómstóla og var meðal annars lögmaður Bangladesh í hafréttardeilu við Mjanmar. Bjarni var dreginn með í lagateymi Boyles og hékk ekki inni á skrifstofu í doktorsnáminu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég varð stúd­ent af fé­lags­fræðibraut Mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri og í ein­hverju bría­ríi skrái ég mig í lög­fræði,“ seg­ir dr. Bjarni Már Magnús­son, haf­rétt­ar­sér­fræðing­ur og frá­far­andi laga­pró­fess­or við Há­skól­ann í Reykja­vík, sem nú hverf­ur þaðan eft­ir tíu ár við skól­ann og tek­ur við pró­fess­ors­stöðu á Bif­röst.

Minnstu munaði þó reynd­ar að allt annað há­skóla­nám yrði fyr­ir val­inu á sín­um tíma. „Ég hafði lengi vel ætlað mér í guðfræði reynd­ar, þá hefði ég orðið séra Bjarni, mjög virðulegt,“ seg­ir pró­fess­or­inn og hlær, en ekk­ert varð þó af því að hann rann­sakaði þá vegi sem enda eru sagðir órann­sak­an­leg­ir. Eins kveður hann sagn­fræði og stjórn­mála­fræði hafa freistað.

„Svo slys­ast ég til að ná próf­inu í al­mennri lög­fræði í fyrstu at­rennu, fékk 6,75 í gamla kerf­inu þegar lög­fræðinni lauk með kandí­dats­prófi, sem var það allra tæp­asta sem dugði til að ná, svo ég slysaðist þarna inn,“ held­ur Bjarni áfram. Hann lauk svo embætt­is­prófi árið 2005 og tók eitt ár í skipti­námi á þeirri veg­ferð. Því fylgdi hvorki meira né minna en náms­ferð til Haag í Hollandi á stríðsglæparétt­ar­höld.

Í rétt­ar­saln­um með Mi­losevic

„Vet­ur­inn 2002 til 2003 var ég skipt­inemi við laga­deild Kaup­manna­hafn­ar­há­skóla og nam meðal ann­ars stríðsglæparétt ásamt mörg­um eft­ir­minni­leg­um karakt­er­um, meðal ann­ars stórvini mín­um Andrea Buit­oni, af­kom­anda síðasta keis­ar­ans í Af­gan­ist­an og ætt­ingja Buit­oni-pasta­fjöl­skyld­unn­ar, og Rich­ard Martz sem gerði síðar garðinn fræg­an í jiddísk­um söng­leikj­um.

Bjarni ásamt eiginkonu sinni, Hildi Sigurðardóttur körfuknattleikskonu, tveimur börnum þeirra …
Bjarni ásamt eig­in­konu sinni, Hildi Sig­urðardótt­ur körfuknatt­leiks­konu, tveim­ur börn­um þeirra og tveim­ur börn­um hans úr fyrra sam­bandi auk þess sem for­eldr­ar Bjarna, Magnús Ólafs­son lækn­ir og Anna Þóra Bald­urs­dótt­ir, fyrr­ver­andi lektor við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, eru viðstödd en Bjarni kveður móður sína bera ábyrgð á aka­demísk­um ferli hans. Ljós­mynd/​Aðsend

Liður í því nám­skeiði var náms­ferð til Haag til að fylgj­ast með rétt­ar­höld­un­um yfir Slo­bod­an Mi­losevic [fyrr­ver­andi for­seta Serbíu og síðar Júgó­slav­íu]. Það var nokk­ur upp­lif­un. Örygg­is­gæsl­an var nokkru meiri en við Héraðsdóm Norður­lands eystra og stærð Alþjóðlega stríðsglæpa­dóm­stóls­ins fyr­ir fyrr­um Júgó­slav­íu sömu­leiðis enda unnu þar í kring­um 1.200 manns,“ seg­ir Bjarni af rétt­ar­höld­un­um.

Fylgd­ist hann með vitna­leiðslum þar sem fram komu lýs­ing­ar eft­ir­lif­enda á marg­vís­leg­um stríðsglæp­um Serba að Mi­losevic viðstödd­um í rétt­ar­saln­um. „Það voru ekki fal­leg­ar lýs­ing­ar svo vægt sé til orða tekið. Við Andrea og fleiri jöfnuðum okk­ur á þessu næstu daga á þrammi um Amster­dam,“ rifjar hann upp af rétt­ar­höld­un­um sem stóðu í fjög­ur ár en var sjálf­hætt þegar Mi­losevic lést af hjarta­áfalli í fanga­klefa sín­um 11. mars 2006.

Fór að selja ofan af fólki

Eft­ir út­skrift hóf Bjarni störf hjá embætti toll­stjór­ans í Reykja­vík þar sem hann varð verk­efna­stjóri nauðung­ar­sölu­mála. „Þar fór ég að selja ofan af fólki,“ seg­ir Bjarni, „og ég er ekki viss um að það sé mjög and­lega hollt að vera bara í nauðung­ar­söl­um alla daga. Ég get að minnsta kosti hugsað mér mjög margt meira gef­andi í lög­fræðinni,“ seg­ir Bjarni sem stoppaði ekki lengi hjá toll­stjóra held­ur skráði sig í nám í alþjóðasam­skipt­um í HÍ og starfaði hjá Per­sónu­vernd sam­hliða því.

Ungur laganemi etur kappi í málflutningskeppni í Stokkhólmi fyrir réttum …
Ung­ur laga­nemi etur kappi í mál­flutn­ingskeppni í Stokk­hólmi fyr­ir rétt­um 20 árum, 2002. Ljós­mynd/​Aðsend

Hug­ur Bjarna stóð þó til frek­ara náms er­lend­is svo hann sæk­ir um við Miami-há­skóla og hlýt­ur Cobb Family-skóla­styrk­inn sem fjöl­skylda Char­les E. Cobb, sendi­herra Banda­ríkj­anna á Íslandi árin 1989 – 1992, veit­ir ein­um ís­lensk­um um­sækj­anda ár­lega. „Svo ég flyt til Miami 2006, hafði aldrei komið þangað og vissi ekk­ert um borg­ina, verð eig­in­lega fyr­ir hálf­gerðu menn­ing­ar­sjokki strax í byrj­un,“ rifjar Bjarni upp. Hluti af áfalli þessu sner­ist um að meira en helm­ing­ur íbúa borg­ar­inn­ar tal­ar spænsku sem fyrsta mál en Bjarni náði sér fljót­lega og kynnt­ist góðu fólki, meðal ann­ars bras­il­ísk­um og mexí­kósk­um skóla­bræðrum sín­um sem enn búa í Miami og Bjarni er enn í góðum tengsl­um við.

Ástæðan fyr­ir val­inu á skóla var að þar kenn­ir Bern­ard Oxm­an, einn helsti sér­fræðing­ur Banda­ríkj­anna í haf­rétti, en við þá fræðigrein hafði Bjarni tekið ást­fóstri þegar á fyrsta ári í laga­deild­inni við HÍ og skrifaði loka­rit­gerð sína á því sviði. Til gam­ans má segja frá því að Oxm­an kenn­ir enn við skól­ann en hann varð níræður í fyrra.

Bjarni ásamt Bernard Oxman, einum fróðasta manni vestanhafs um hafrétt, …
Bjarni ásamt Bern­ard Oxm­an, ein­um fróðasta manni vest­an­hafs um haf­rétt, en Oxm­an var helsta ástæða meist­ara­náms Bjarna við Miami-há­skóla og kenn­ir þar enn, níræður í fyrra. Ljós­mynd/​Aðsend

„Hann var viðstadd­ur fjölda stórviðburða á sviði þjóðarétt­ar á síðari hluta 20. ald­ar og gat sagt frá þessu öllu frá fyrstu hendi. Það er mjög gam­an að hlusta á svona karla,“ seg­ir Bjarni sem sam­tím­is lauk tveim­ur meist­ara­gráðum, í alþjóðasam­skipt­um frá HÍ, en hann lauk því námi fyrst­ur manna, og í haf­rétti við Miami-skól­ann.

Aka­demísk­ur fer­ill fyr­ir til­stilli mömmu

„Ég skrifaði loka­rit­gerðina mína um Smugu­deil­una. Það var mjög fyndið að skrifa um hana í 30 stiga hita ut­an­dyra í stutt­bux­um með pálma­tré í kring­um sig,“ ját­ar Bjarni og hlær af inni­leika. Hann skilaði sér svo til Íslands sum­arið 2007 en þá var þegar tekið að syrta í ál­inn í ís­lensku hag­kerfi fyr­ir þau ósköp sem dundu yfir í fram­hald­inu.

„Ég fer að sækja um störf en það geng­ur ekk­ert, all­ir bún­ir að skella í lás í nýráðning­um í bili svo ég slys­ast til að taka við kennslu í lög­fræði við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, það var í gegn­um mömmu,“ seg­ir Bjarni og blaðamaður hvá­ir. Kem­ur þá í ljós að móðir Bjarna, Anna Þóra Bald­urs­dótt­ir, var lektor við skól­ann, braut­ar­stjóri fram­halds­deild­ar og um tíma deild­ar­formaður kenn­ara­deild­ar.

Bjarni í viðtali um fræði sín á Smithsonian-safninu. Áletrunin á …
Bjarni í viðtali um fræði sín á Smith­soni­an-safn­inu. Áletr­un­in á veggn­um að baki hon­um, „Miles and Miles of Mud“, er von­andi ekki sam­an­tekt á lífi og störf­um haf­réttar­fræðinga heims­ins. Ljós­mynd/​Aðsend

„Þannig að þetta er allt móður minni að kenna að ég fór í aka­demí­una,“ seg­ir Bjarni hisp­urs­laust en get­ur þó ekki falið ísmeygi­leg­an kímnitón­inn. Í ljós kem­ur að kennsla og rann­sókn­ir höfða vel til Bjarna og minn­ist hann þess sér­stak­lega hrun­haustið fræga þegar hann kom út úr tíma í rétt­ar­heim­ilda­fræði og fékk þá að heyra að ríkið hefði tekið Glitni yfir á meðan hann las yfir nem­end­um sín­um.

Með her­for­ingja­stjórn­inni á kló­sett­inu

Er þarna var komið sögu þótti Bjarna stemmn­ing­in hálfsúr á Íslandi eins og hann orðar það svo hann greip tæki­færið og sótti um og fékk inn­göngu í doktors­nám í haf­rétti við Ed­in­borg­ar­há­skóla. Rak þar á fjör­ur hans pró­fess­or Alan Boyle sem einnig sinnti lög­mennsku við alþjóðlega dóm­stóla.

Doktor í hafrétti frá Edinborgarháskóla við hljómmikinn undirleik. Óhætt er …
Doktor í haf­rétti frá Ed­in­borg­ar­há­skóla við hljóm­mik­inn und­ir­leik. Óhætt er að segja að doktors­nám Bjarna hafi verið óvenju­legt þar sem það fór að miklu leyti fram í rétt­ar­söl­um alþjóðlegra dóm­stóla þar sem ríki deildu um rétt­indi á haf­inu. Ljós­mynd/​Aðsend

„Hann var þá lögmaður Bangla­desh í máli gegn Mjan­mar [áður Búrma] og ég er bara sj­ang­hæjaður inn í lagat­eymi Bangla­desh og fer að vinna fyr­ir ben­g­alska ríkið í allsvaka­legu lagat­eymi þar sem voru pró­fess­or­ar í Cambridge og Ed­in­borg­ar­skóla og al­veg risa­nöfn, þetta var mjög áhuga­verð reynsla. Ég lenti til dæm­is inni á karlakló­setti hjá Alþjóðlega haf­rétt­ar­dóm­stóln­um með sjö úr her­for­ingja­stjórn Mjan­mar sem var ákveðið bíó,“ seg­ir Bjarni af náms­ár­um sín­um í Ed­in­borg. 

Málið sner­ist um af­mörk­un hafsvæða Bangla­desh og Mjan­mar og var fyrsta mál sem fjallaði um land­grunnið úti fyr­ir 200 sjó­míl­um fyr­ir alþjóðleg­um dóm­stól­um en um þetta fjallaði doktors­rit­gerð Bjarna ein­mitt. Hann kom að fleiri mál­um á veg­um pró­fess­ors Boy­les, starfaði til dæm­is fyr­ir Jap­an í hval­veiðimáli Ástr­al­íu og Nýja-Sjá­lands gegn Jap­an.

Ekki hangið inni á skrif­stofu

„Ég var að afla gagna um hug­takið vís­inda­hval­veiðar og hvernig bæri að skilja það og þurfti að grandskoða hvernig það hefði verið skilið frá ör­ófi alda,“ seg­ir Bjarni, „það var auðvitað ótrú­leg reynsla að kom­ast í svona störf sem ein­hver doktorsnemi í staðinn fyr­ir að hanga bara inni á skrif­stofu.“

Að loknu æv­in­týra­legu doktors­námi í haf­rétti í Ed­in­borg, sem þó teygði anga sína víða um heim, tók Bjarni við stöðu við Há­skól­ann í Reykja­vík þar sem hann hef­ur starfað í slétt­an ára­tug nú er leiðir skil­ur. Þar hóf hann kennslu í þjóðarétti, haf­rétti og þjóðrétt­ar­leg­um hliðum á norður­skauts­mál­um sem nú sitja í önd­vegi gagn­vart Íslend­ing­um.

Bjarni og Hildur í hinni fögru Edinborg á námsárum hans …
Bjarni og Hild­ur í hinni fögru Ed­in­borg á náms­ár­um hans þar. Ljós­mynd/​Aðsend

„Svo var ég reynd­ar gesta­fræðimaður við Há­skól­ann í Duke í Norður-Karólínu, var þar á Ful­bright-styrk. Stundaði þar rann­sókn­ir á ofboðslega fínu bóka­safni með skrif­stofu og aðstoðarmann,“ seg­ir Bjarni sem var í Banda­ríkj­un­um á póli­tísk­um um­brota­tím­um árið 2016, Don­ald Trump rak kosn­inga­bar­áttu sína  af hörku og hlaut embættið í kosn­ing­um síðla árs. Bjarna þótti rétt að missa ekki af þessu.

Heilsað upp á fram­bjóðend­ur

„Ég og Sig­urður Kári Tryggva­son lögmaður, sem var í meist­ara­námi við Duke á þess­um tíma, fór­um auðvitað og mætt­um á svona Trump rally og það er lík­lega sá furðuleg­asti at­b­urður sem ég hef orðið vitni að á æv­inni,“ seg­ir hann og hlær. „Við kíkt­um líka inn hjá Hillary Cl­int­on og Bernie Sand­ers, tók­um nokkra daga í þetta sem var ótrú­leg reynsla,“ held­ur hann áfram og talið berst frá Don­ald Trump að nýrri stöðu við Bif­röst.

Með Sigurði Kára Tryggvasyni lögmanni í kosningaeftirlitsferð um Bandaríkin 2016. …
Með Sig­urði Kára Tryggva­syni lög­manni í kosn­inga­eft­ir­lits­ferð um Banda­rík­in 2016. Heim­sóttu þeir fé­lag­ar kosn­inga­fundi nokk­urra helstu fram­bjóðenda og höfðu gam­an af. Ljós­mynd/​Aðsend

„Mig langaði að prófa eitt­hvað nýtt eft­ir tíu ár í starfi og þarna er margt at­hygl­is­vert í gangi,“ seg­ir Bjarni og bæt­ir því við að staðan bjóði upp á tölu­verðan sveigj­an­leika vegna ríku­legrar fjar­kennslu. „Ég get unnið heima hjá mér, á skrif­stofu skól­ans í Borg­ar­túni og uppi á Bif­röst og svo eru bara stór­skemmti­leg­ir stjórn­end­ur við skól­ann og mik­ill kraft­ur í þeim. Þarna er sem sagt skap­andi and­rúms­loft og kraft­ur,“ seg­ir Bjarni af nýj­um vett­vangi.

Hon­um er ætlað að koma inn í upp­bygg­ingu rann­sókna í lög­fræði en við Há­skól­ann í Reykja­vík gegndi hann ein­mitt stöðu for­manns rann­sókn­aráðs ný­lega. Þá er Bjarni á leið í kennslu í lofts­lags­rétti. „Góður vin­ur minn, Guðmund­ur Al­freðsson, mik­ill reynslu­bolti í þjóðarétti, sagði mér ein­hvern tím­ann að besta leiðin til að læra eitt­hvað nýtt væri að kenna það,“ seg­ir Bjarni sposk­ur og get­ur þess um leið að þjóðarétt­ur og haf­rétt­ur verði auðvitað áfram þunga­vigt­ar­svið í störf­um hans.

Frú­in þekkt körfuknatt­leikskempa

Legg­ur Bjarni ríku­lega áherslu á þýðingu haf­rétt­ar og þekk­ing­ar á þeirri grein fyr­ir Ísland. „Hvort tveggja fyr­ir stjórn­völd og einkaaðila. Mér finnst oft vanta svo­lítið áhersl­ur á þetta svið í lög­fræðinni hér­lend­is, þar mætti margt gera bet­ur, út­hafsveiðar eru til dæm­is svið sem nýt­ur tak­markaðrar at­hygli, þarna eru millj­arðar und­ir svo ég nefni eitt­hvað og þetta er nokkuð sem mig lang­ar að ein­beita mér að á Bif­röst, rann­sókn­ir á ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi og teng­ing­um hans við fræðin,“ seg­ir pró­fess­or­inn.

Með Kristni Schram þjóðfræðidósent hátt uppi í fjöllum Alaska.
Með Kristni Schram þjóðfræðidós­ent hátt uppi í fjöll­um Alaska. Ljós­mynd/​Aðsend

Þar með líður að lok­um fróðlegs spjalls um hið fræðilega lífs­hlaup Bjarna Más Magnús­son­ar sem er mik­ill áhugamaður um körfu­bolta og reynd­ar liðtæk­ur leikmaður þar enda kvænt­ur Hildi Sig­urðardótt­ur, einni þekkt­ustu körfuknatt­leiks­konu lands­ins og nú grunn­skóla­kenn­ara. Bjarna hef­ur orðið fjög­urra barna auðið, á tvö úr fyrra sam­bandi, níu og ell­efu ára göm­ul, og tveggja og fimm ára göm­ul eru börn þeirra Hild­ar.

Lækn­aráðstefna og Iron Mai­den

„Maður er alltaf á ein­hverj­um mót­um, áðan var ég til dæm­is í bíó með liðsfé­lög­um dótt­ur minn­ar,“ seg­ir Bjarni sem auk þess er mik­ill áhugamaður um skáld­skap. Und­ir lok­in miss­ir pró­fess­or­inn þó út úr sér – og vís­ar þar til ný­legs viðtals mbl.is við Gísla Gísla­son lög­mann um Iron Mai­den-tón­leik­ana í Reykja­vík 5. júní 1992 – að hann hafi ein­mitt verið á téðum tón­leik­um, þá þrett­án vetra.

Bjarni fórnaði því sem hefði getað orðið glæstur tónlistarferill fyrir …
Bjarni fórnaði því sem hefði getað orðið glæst­ur tón­list­ar­fer­ill fyr­ir doktors­gráðu í haf­rétti og kennslu­störf og get­ur því lík­lega tal­ist hug­sjónamaður. Þeir feðgar mættu þó á tvenna tón­leika Iron Mai­den á Íslandi. Ljós­mynd/​Aðsend

„Ég var bú­inn að vera að suða um þetta við for­eldra mína, bjó þá á Ak­ur­eyri, og þá reyn­ist vera lækn­aráðstefna í Reykja­vík á þess­um tíma og pabbi tek­ur mig með suður,“ seg­ir Bjarni sem er son­ur Magnús­ar Ólafs­son­ar lækn­is, „og við gist­um á Hót­el Esju og borðuðum á Pizza Hut sem þá var þar og skellt­um okk­ur svo á Iron Mai­den,“ rifjar Bjarni upp. Hann hafi svo snúið tafl­inu við næst þegar bresku þung­arokk­ar­arn­ir heim­sóttu land og þjóð 7. júní 2005 og þá tekið föður sinn lækn­inn með á þá tón­leika. „Hon­um fannst þetta bara fínt,“ seg­ir pró­fess­or Bjarni Már Magnús­son af tón­leika­sókn þeirra feðga og lýk­ur hér frá­sögn þeirri.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert