Dæmdur fyrir að nauðga dóttur sinni

mbl.is/G.Rúnar

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt föður sekan um að nauðga dóttur sinni árið 2020. Fyrir dómi var maðurinn sakfelldur fyrir nauðgun gagnvart barni sínu, sifjaspell, kynferðislega áreitni gagnvart barni sínu, brot í nánu sambandi og vörslu á barnaníðsefni.

Maðurinn var dæmdur til að sæta fangelsi í þrjú og hálft ár. Þá var honum gert að greiða dóttur sinni um 2.9 milljónir króna í miska- og skaðabætur. Auk þess þarf hann að greiða 1,1 milljón málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 950 þúsund þóknun skipaðs réttargæslumanns dóttur sinnar og 732 þúsund í annan sakarkostnað.

Ótrúverðugur framburður

Maðurinn var ákærður fyrir kynferðislega áreitni og brot í nánu sambandi í ökuferð að þá verandi heimili mannsins. Hann var einnig ákærður fyrir nauðgun og brot í nánu sambandi eftir að hafa lagt bílnum afsíðis í umræddri ökuferð. Þá var hann ákærður fyrir kynferðislega áreitni og brot í nánu sambandi eftir að heim var komið að ökuferð lokinni. Að endingu var maðurinn ákærður fyrir að hafa haft gríðarlegt magn af ljósmyndum og hreyfimyndum í vörslum sínum sem sýna börn á kynferðislegan hátt.

Málið valt alfarið á mati á trúverðugleika framburðar föðurins annars vegar og dóttur hans hins vegar, auk þeirra ályktana sem draga mátti af atferli þeirra eftir umrædda ökuferð.

Var framburður dótturinnar talinn staðfastur og trúverðugur á meðan framburður mannsins, sem þó var staðfastur, var talinn ótrúverðugur. Manninum hafi mátt vera ljóst að háttsemi hans í garð dóttur sinnar, sem kominn var til hans í heimsókn í annað skiptið á ævinni, hafi verið framin í óþökk hennar.

Við ákvörðun refsingar tók dómstóllinn það fram að fyrir utan hreinan sakaferil ætti maðurinn sér engar málsbætur. Honum hafi mátt vera ljóst að þessi alvarlegu brot hans á trausti dóttur sinnar væru til þess fallinn að valda tjóni á sálarheill hennar. Maðurinn hafði hvorki viðurkennt verknað sinn fyrir dómsuppkvaðningu, sýnt iðrun né reynt að nálgast dóttur sína á nokkurn hátt eða bæta fyrir brot sitt. Kom allt þetta til refsiþyngingar.

Haldinn fíkn í barnaklám

Þá var maðurinn einnig dæmdur til refsingar fyrir að hafa haft mikið magn barnaníðsefnis í vörslum sínum, en um mjög gróft efni sé að ræða. Voru brotin talin stórfellt og til málsbóta horfði það eitt að maðurinn viðurkenndi brot sitt skýlaust og játaði fyrir dómi að hann ætti við fíkn að stríða gagnvart barnaklámi. Kvaðst hann skammast sín fyrir það og að hann þyrfti á aðstoð að halda.

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert