„Ein innköllun er of mikið“

Hildigunnur Svavarsdóttir, for­stjóri Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri, segir síðasta úrræði að …
Hildigunnur Svavarsdóttir, for­stjóri Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri, segir síðasta úrræði að kalla fólk til vinnu úr fríi. mbl.is/Margrét Þóra

Ekki hefur þurft að kalla fleiri starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri úr sumarleyfi. Aðeins færri liggja inni á sjúkrahúsinu núna en í síðustu viku, en þó er álagið enn mikið.

Þetta segir Hildigunn­ur Svavars­dótt­ir, for­stjóri Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri, í sam­tali við mbl.is.

Í síðustu viku var greint frá því að Sjúkrahúsið hefði kallað inn starfsfólk sitt sem var í sumarleyfi til vinnu vegna mikillar manneklu. Hildigunnur segir það síðasta úrræði, en enginn hefur verið kallaður inn úr fríi í þessari viku. Hún er bjartsýn á að ekki þurfi að kalla fleiri inn úr fríi, það verði forðast í lengstu lög.

„Við leggjum áherslu á að gera það ekki, ef við mögulega getum. Ein innköllun er of mikið,“ segir Hildigunnur.

Álagið er mikið á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Álagið er mikið á Sjúkrahúsinu á Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Gæti breyst á morgun

Að sögn Hildigunnar er staðan á bráðamóttökunni stöðug, sama eigi við um Covid-19-göngudeildina, þar séu alltaf þrír til fjórir sjúklingar inni. Þó segir hún að heilt yfir liggi aðeins færri inni á sjúkrahúsinu.

„Það eru aðeins færri inniliggjandi núna, en hvort það breytist á morgun veit ég ekki. Það virðist vera aðeins minna álag en það er samt sem áður mikið álag.“

Þá ítrekar Hildigunnur að mikilvægt sé að fólk leiti ekki á bráðamóttökuna nema þörfin sé brýn, þó sé alltaf tekið á móti öllum en einhverjum kunni að vera leiðbeint í önnur úrræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert