Lúxussnekkjur útlendra auðmanna hafa verið á ferð við Ísland undanfarin sumur en nú ber svo við að engin slík snekkja hefur komið til Reykjavíkur í sumar. Þetta upplýsir Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður Faxaflóahafna.
Ekki er útilokað að slíkar snekkjur komi áður en sumarið er úti enda eru komur þeirra gjarnan tilkynntar með skömmum fyrirvara, segir Gísli.
Í fyrrasumar voru birtar fréttir af lúxussnekkjunni A sem var hér við land í nokkrar vikur og kom víða við. Snekkjan er 142 metrar að lengd og er talin ein af stærstu snekkjum heims. Möstrin, sem eru þrjú, ná í um 100 metra hæð. Eigandi hennar er rússneski milljarðamæringurinn Andrei Melnichenko. Snekkjan kom m.a. við í Siglufirði, í Skagafirði og Eyjafirði, Reykjavík svo og Önundarfirði og víðar á Vestfjörðum. Melinchencko heimsótti Húsavík og leigði þá sjóböðin þar til einkanota.
Melnichenko sætir nú refsiaðgerðum vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Samkvæmt fréttum í erlendum miðlum var snekkjan A kyrrsett á Ítalíu fyrr á þessu ári.
Hún mun því ekki birtast í íslenskum höfnum á þessu ári frekar en önnur rússnesk skip enda er í gildi bann við að afgreiða rússnesk skip í íslenskum höfnum, upplýsir Gísli Jóhann Hallsson.