Fengu miða á EM í jólagjöf

Stelpurnar sextán úr HK eru loksins mættar á Evrópumótið.
Stelpurnar sextán úr HK eru loksins mættar á Evrópumótið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum hérna með 16 stelpum úr HK og fjölskyldum þeirra,“ sögðu mæðgurnar Íris Hrund Þorsteinsdóttir og Karen Fjóla Kristjánsdóttir í samtali við mbl.is á Fanzone stuðningsmanna íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu í Piccadilly Gardens í Manchester í dag.

Ísland mætir Ítalíu í sínum öðrum leik í D-riðli Evrópumótsins á akademíuvelli Manchester City klukkan 17 að staðartíma en Íris Hrund og Karen Fjóla komu til Englands í gær.

„Við fengum allar miða á Evrópumótið í jólagjöf frá fjölskyldum okkar,“ sagði Karen Fjóla sem er 11 ára gömul.

Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagna …
Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagna marki íslenska liðsins gegn Belgíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugu út eftir símamótið

Íris Hrund er á sínu öðru stórmóti en hún fylgdi karlaliðinu til Frakklands sumarið 2016.

„Mér finnst stemningin mjög svipuð hérna og á EM í Frakklandi árið 2016,“ sagði Íris Hrund.

„Karen dóttir mín fékk þá hugmynd að fara á EM á síðasta ári og ég hafði samband við fólk í kringum okkur sem tók virkilega vel í hugmyndina. Svo hafa fleiri bæst við í hópinn, eins og til dæmis ömmur og afar, þannig að þetta er í raun bæði mæðgna- og fjölskylduferð hjá okkur.

Við kláruðum Símamótið á sunnudaginn og flugum svo beint út eftir það og við gætum ekki verið spenntari fyrir leiknum á eftir,“ bætti Íris Hrund við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert