Skemmtiferðaskipið Hanseatic Nature lagðist að bryggju á Sauðárkróki í dag. Þetta er í fyrsta sinn í 45 ár sem skemmtiferðaskip siglir inn Skagafjörð en það gerði þýska skipið World Discoverer árið 1977.
Alls eru fjórar komur skemmtiferðaskipa bókaðar í sumar, tvær í júlí og tvær í ágúst, að því er fram kemur á vef Skagafjarðar.
Skagafjörður tók vel á móti skipinu, blíðuveður með sólarglömpum og rigningarskúrum í bland. Skipið kom frá Noregi og heldur síðan til Grænlands með allt að 230 farþega. Miklar vonir eru bundnar við að skipin sem koma í sumar verði lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu, bæði á Sauðárkróki og í sveitunum í kring.