Óskað var eftir aðstoð lögreglu á tíunda tímanum í gærkvöldi vegna líkamsárásar í Breiðholti. Ósáttur viðskiptavinur hafði kýlt vagnstjóra í andlitið.
Tvær aðrar líkamsárásar voru tilkynntar, sú fyrri í miðbæ Reykjavíkur um fimmleytið í gær og sú síðari á áttunda tímanum í gærkvöldi í Hafnarfirði, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynnt var um eld í heimahúsi í hverfi 220 í Hafnarfirði klukkan níu í gærkvöldi. Eldurinn reyndist minniháttar og hafði sá sem tilkynnti hann slökkt hann sjálfur áður en viðbragðsaðilar komu á staðinn.
Laust fyrir klukkan hálftólf í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í tvö atvinnuhúsnæði í hverfi 220 í Hafnarfirði þar sem fjármunum var stolið.
Einn var handtekinn í verslun í Árbænum á ellefta tímanum í gærkvöldi. Sá hafði reynt að stela úr versluninni og neitaði síðan að segja til nafns að kröfu lögreglu. Vista þurfti hann í fangageymslu vegna málsins.
Einnig var nokkuð um að ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.