Lögregla kölluð út í farþegaþotu Wizz Air

Átta lögreglumenn lögreglunnar á Suðurnesjum leiddu hóp farþega frá borði farþegaþotu Wizz Air á Keflavíkurflugvelli seint í gærkvöldi.

Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is.

Flugvélin, sem var á leið frá Varsjá í Póllandi, lenti rétt fyrir miðnætti í gær.

Hópurinn, sem var fjölmennur, hafði verið sýnilega ölvaður frá upphafi ferðarinnar, með töluverðar óspektir, og margir í hópnum ítrekað neitað að halda kyrru fyrir í sætum sínum á meðan fluginu stóð, samkvæmt heimildum mbl.is.

Stuðningsmenn Pogoń í grennd við EM-torgið í dag.
Stuðningsmenn Pogoń í grennd við EM-torgið í dag. mbl.is/Hákon

Hrópuðu í kallkerfið

Í samtali við mbl.is segir sjónarvottur að flugfreyjurnar um borð hafi augljóslega verið undir miklu álagi. Gripu þær nokkrum sinnum til þess ráðs að hreinlega hrópa í kallkerfi vélarinnar til að koma fyrirmælum til hópsins til skila.

Þá mun þess einnig hafa orðið vart að menn úr hópnum höfðu reykt inni á salernum vélarinnar.

Samkvæmt heimildum mbl.is var um að ræða pólska stuðningsmenn knattspyrnuliðs. 

KR mætir pólska liðinu Pogoń frá Szczecin í Vesturbænum í kvöld, í fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag ollu stuðningsmenn Pogoń usla á EM-torginu í miðbæ Reykjavíkur í dag þar sem fólk fylgdist með leik íslenska kvennalandsliðsins á móti því ítalska.

Veg­far­end­ur sem mbl.is ræddi við töldu í fyrstu að um mót­mæli væri að ræða en af treyj­un­um að dæma mátti sjá að þarna væru öfl­ug­ir stuðnings­menn á ferð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert